F.Í.Æ.T.

Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi

Saga félagsins í stuttu máli
 
 
Árið 2010 voru 25 ár síðan þeir sem sinntu íþrótta- og æskulýðmálum hjá sveitarfélögum landsins fóru að hittast reglulega. 
Tilgangurinn var að kynnast, skiptast á upplýsingum og fjalla á faglegan hátt um málaflokkinn með það að meginmarkmiði að miðla þekkingu varðandi uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmannvirkja sveitarfélaga, rekstur þeirra og umsjón.
Á þessum árum kölluðu félagsmenn sig „Pálma", félag íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. Árið1997 var svo Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa formlega stofnað með markmið, lög og reglur og eru félagar nú 50 frá 30 sveitarfélögum auk tveggja fulltrúa Mennta– og menningarmálaráðuneytisins og fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Félagið fékk skammstöfunina FÍÆT.
 
Hvað er FÍÆT?
 
Bæklingi þessum er ætlað að veita upplýsingar um starfsemi félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi, FÍÆT.
Þeir sem mynda þetta félag eiga það sameiginlegt í starfi sínu að sinna íþrótta-, æskulýðs- , forvarna og tómstundastarfi hjá sveitarfélögum landsins.
Um aðild að félaginu geta þeir einir sótt sem hafa yfirumsjón með íþrótta- og æskulýðsmálum í sínu sveitarfélagi. Störfin eru þó samsett á ýmsan máta vegna mismunandi stærðar og skipurita sveitarfélaga.
 
Helstu markmið félagsins eru fagleg þróun, fræðsla og aukið upplýsingastreymi til eflingar starfsemi í öllum þeim fjölbreyttu þáttum starfsins sem félagsmenn gegna í þessum mikilvæga málaflokki.
 
 
Helstu hlutverk
 
• Yfirumsjón með fjárhagsáætlanagerð, rekstri, starfsemi og framkvæmdum málaflokksins.
• Framkvæmdastjórn íþrótta- og æskulýðsnefnda sveitarfélaga.
• Yfirumsjón íþróttahúsa, sundlauga og íþróttavalla, félagsmiðstöðva, ungmennahúsa og/eða félagsheimila sveitarfélaga.
• Yfirumsjón vinnuskóla, skólagarða og sumarstarfs ungs fólks í sveitarfélögum.
• Gerð og eftirlit samstarfs-, framkvæmda- og/eða rekstrarsamninga t.d. við skóla, íþróttafélög, deildir eða aðra þá sem starfa á vettvangi frítímans.
• Skipulag og verkefnastjórn í ýmsum málum sem til falla, t.d. forvarnamál, átaksverkefni, hátíðir og erlend samskipti svo eitthvað sé nefnt.
 
Starfið er mismundandi samsett eftir sveitarfélögum eins og áður segir, sumir hafa jafnvel skólamál, félagsstarf aldraðra og menningarmál í starfslýsingu sinni og þurfa því margir félagsmanna að vinna í fjölbreyttu starfsumhverfi, enda segjum við oft sjálfir að ekkert sé meira gefandi en að vinna að mannlegum þáttum.
 
 
Fræðslufundir og ráðstefnur
 
 
Vorfundur FÍÆT er jafnframt aðalfundur félagsins. Sveitarfélög félagsmanna skiptast á að bjóða heim á þessa fundi og kynna þá í leiðinni það sem verið er að gera í málaflokknum í sveitarfélaginu.
 
Haustfundur FÍÆT er eins og nafnið bendir til haldinn að hausti, oftast í Reykjavík í samvinnu við Mennta– og menningarmálaráðuneytið og þar gefst kostur á að miðla upplýsingum og fróðleik milli félagsmanna.
 
Á báða þessa fundi hafa verið kallaðir til hinir ýmsu aðilar til að kryfja fagleg mál og skiptast á skoðunum og hugmyndum málaflokknum til heilla.
 
 
Helstu samstarfsfélög FÍÆT eru:
 
- Félag fagfólks í frítímaþjónustu
- Félag forstöðumanna íþróttamannvirkja
- Samtök félagsmiðstöðva—SAMFÉS
- Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi
 
Aðrir samstarfsaðilar:
- Samband íslenskra sveitarfélaga
- Mennta– og menningarmálaráðuneytið