FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

19. nóvember 2002

Frá formanni Samfés

 

 (2. grein af 2.)

Starfsemi félagsmiðstöðva

Víða um land hefur merkilegt frumkvöðlastarf verið unnið í félagsmiðstöðvum.  Félagsmiðstöðvar hafa stofnað til samtaka á landsfjórðungsvísu s.s. á Austurlandi (Samaust), Suðurnesjum (Samsuð) og í Eyjafirði.   Náin samvinna skóla og félagsmiðstöðvar hefur leitt af sér formlegt félagsmálanám á Ísafirði og í Garðabæ og í ört vaxandi samfélögum eins og í Kópavogi hefur húsnæðisvandi hvað varðar uppbyggingu félagsmiðstöðva verið leystur með samnýtingu skólahúsnæðis, lausn sem víða er meir og meir notuð í kjölfar einsetningar skóla og í Borgarnesi eru unglingarnir virkjaðir með starfslýsingum um ýmis störf og embætti í félagsmiðstöðinni.  Í stærri heildum hefur svo gefist tóm til að sérhæfa sig meira.  Í Reykjavík má t.d. sjá öll helstu tilbrigði í æskulýðstarfi félagsmiðstöðva.  Nýjungar birtast í heildstæðari þjónustari við breiðari aldurshóp.  Félagsmiðstöðvarnar eiga að koma á stofn Frístundaheimilum en þau taka við af lengdri viðveru skólanna. Þar með er starfsemi félagsmiðstöðva farin að þjóna daglega aldurshópnum 6-16 ára allan ársins hring með sérstaka áherslu á frítímann.  Til viðbótar við þetta sinna félagsmiðstöðvarnar verkefnum á borð við forvarnir gegn einelti, fordómafræðslu, halda opin hús, starfrækja klúbba, halda tónleika og böll, sjá um leikjanámskeið, bjóða tómstundanámskeið, standa að þverfaglegu samstarfi og samráði við lögreglu, félagsþjónustu, skóla og heilsugæslu og svona mætti lengi telja.  Fyrir frekari upplýsingar er vísað á heimasíðu ÍTR http://www.itr.is þar sem m.a. má finna starfs- og fjárhagsáætlun fyrir 2002.

 Samfés

 Starf félagsmiðstöðva hér á landi hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugina.  Allt frá stofnun Fellahellis í Breiðholtshverfum í Reykjavík 1974 hefur félagsmiðstöðvum með sterkum uppeldisáherslum fjölgað jafnt og þétt.   Árið 1985 hafði myndast þörf fyrir skipulagða samræmingu s.s. á svið fagþróunar, forvarna og samstarfs innan og utanlands.  Tóku þá fulltrúar 29 félagsmiðstöðva sig til og stofnuðu Samfés (samtök félagsmiðstöðva á Íslandi).   Er svo komið að eftir aðalfund Samfés vor 2002 hafa 79 aðildarfélagar fengið inngöngu.
 
Helstu markmið samtakanna hafa verið:
* Að auka samskipti og samvinnu milli félagsmiðstöðva og efna til verkefna á innlendum og erlendum vettvangi.
* Að efla fagmenntun fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva með ráðstefnum og námskeiðum.
* Að koma á framfæri faglegum upplýsingum um starf félagsmið- stöðva og undirstrika vægi þeirra í nútíma samfélagi.
* Að hafa áhrif á umræðu , hugmyndir og löggjöf um æskulýðsmál á Íslandi.

Fjöldi vaxtarsprotar hafa náð góðum vexti.  Nefna má jafningjafræðsluna (forvarnir), stórar landssamkomu og starfsmannaþálfun á erlendri grund sem nokkur dæmi.  Þau hafa ennfremur gegnt því hlutverki að virkja þá fjölbreytni sem býr í orkumiklu ungviðinu.  Nýjungar í iðkun hafa ávallt fengið góðar mótttökur á þessum vettvangi.  Nefna má "freestyle" dansa, rapp, snjó- og hjólabrettaiðkun og hvaðeina sem ekki hefur fengið inni annarsstaðar hjá viðurkenndum aðila á viðkomandi sviði.  Upplýsingar um faglegt félagsmiðstöðvastarf liggja til reiðu hjá samtökunum og greitt aðgengi verið að ráðgjöf.  Eitt mikilvægasta hlutverk samtakanna er sterk áhersla á byggðasjónarmið. Þannig var síðasti aðalfundur haldinn á Eiðum og landsmótið 2001 á Ísafirði með myndarlegum stuðningi viðkomandi sveitarfélaga.  Akkilesarhæll samtakanna í þessarri auknu eftirspurn eftir starfi og ráðgjöf frá hendi hefur takmarkað rekstrarfé hamlað þróun. Vísað er að öðru leyti á frekari upplýsingar s.s. dagskrá samtakanna á: http://www.samfes.is 

 

Framtíðarsýn
Gildi félagsmiðstöðvarinnar endurspegla inntak barnasáttmálans SÞ.  Þannig ætti hún að geta orðið mikilvægt tæki sveitarfélaganna í fjölmenningarsamfélaginu. Náið samstarf félagsmiðstöðva við skólana býður uppá möguleika á enn hagkvæmari samnýtingu húsnæðis og þverfaglega möguleika í uppeldisstarfi.  Félagsmiðstöðin getur einnig opnað börnum og ungu fólki enn frekar dyrnar að ýmis konar annarri iðkun í samstarfi við aðra aðila á sviði æskulýðsstarfs s.s. skipulagðri íþrótta- og listiðkun.  Er ástæða til að styðja slíkt með t.d. formlegri vottun á óformlegu námi.  Lýðræðisleg vinnubrögð skipa stóran sess í starfinu með starfrækslu unglingaráða.  Nýverið hefur svo verið stofnað Reykjavíkurráð ungmenna.  Reykjavíkurráðið hélt sameiginlegan borgarstjórnarfund með borgarfulltrúum, þar sem unga fólkið lagði formlega fram tillögur sínar.  Hugsanlega er verk að vinna fyrir Samfés á þessu svið, þ.e. á landsvísu, og þá í samstarfi við yfirvöld landsmála, t.d. alþingi og ráðherra.   Er þetta í anda þess sem Unesco og Sameinuðu þjóðirnar hafa viljað starfa eftir og er nýafstaðið barna og ungmennaþing Sameinuðu Þjóðanna gott dæmi um slíkt.  Forvarnargildi æskulýðsstarfs er sérstaklega mikilvægt, sér í lagi þegar við sjáum árangur.  Kannanir hafa sýnt fram á að neysla tóbaks, áfengis og ólöglegra vímuefna er að minnka.  Erfitt er að greina öruggt samhengi um orsakavaldi.  Þó eru sterkar vísbendingar um að með samstilltri og markvissri stefnumótun félagsmiðstöðva megi ná enn betri árangri.
 
 Lokaorð

 Mikilvægt er að landssamtökum á borð við Samfés verði gert kleift að sinna vaxandi þróun á lands- og alþjóðavísu.  Í anda nútíma samfélags er brýnt að unnið sé út frá forsendum ungs fólks á grunni þarfagreiningar og þeim leyft að blómstra á eigin krafti, þ.e. fái umboð til athafna og ábyrgðar.
Hlutverk sveitarstjórna er mikilvægt í ofangreindu starfi.  Því þurfa þessi mál faglega umfjöllun á sameiginlegum vettvangi þeirra.  Fullyrt er hér að inntak og hlutverk félagsmiðstöðva er oft ekki síður mikilvægt en t.d. hið formlega og lögbundna hlutverk skólans sem og barnaverndarnet samfélagsins.  Eru hér um margt um ónýtt sóknarfæri að ræða. Einnig er óhætt að fullyrða að ríkisvaldið, þ.e. ríkisstjórn og Alþingi gegna of veiku hlutverki þegar kemur að stefnumörkun og stuðningi við starf félagsmiðstöðva á lands- og alþjóðavísu.  Félagsmiðstöðvar eru og verða stöðugt stærri hluti uppeldismála hér á landi sem þarfnast faglegrar stefnumörkunar, líka á sviði stjórnmálanna.

 Óskar Dýrmundur Ólafsson
 Formaður Samfés

Heimildir:

Árbók sveitarfélaga 2001, Samband íslenskra sveitarfélaga, 17. árgangur.

Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna, 20. nóv. 1989

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2002.

Hrefna Björk Ævarsdóttir, Sigrún Huld Auðunsdóttir: "Samfés", B.ed. ritgerð frá KHÍ júní 2002.

Lög um æskulýðsmál 1970, nr. 24 17. apríl

Ólafur Þór Ólafsson:  "Opinber stefnumótun á sviði frítímans.  Eru málefni frítímans á dagskrá í íslenskum stjórnmálum?", B.A. ritgerð í stjórnmálafræði nr. 1843, HÍ janúar 2002.

Svandís Nína Jónsdóttir, Hera Hallbera Björnsdóttir, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir:  Börnin í borginni, líðan og samskipti í skóla, félagsstarf og tómstundir og vímuefnaneysla:  Könnun meðal nemenda í 5.-10. bekk grunnskóla í Reykjavík vorið 2001, Reykjavík 2002.

Þórólfur Þórlindsson, Kjartan Ólafsson, Viðar Halldórsson, Inga Dóra :  Félagsstarf og frístundir íslenskra unglinga, Reykjavík 2000.