FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Stjórn FÍÆT á starfsárinu 2004 – 2005 skipuðu:

 

Indriði Jósafatsson Borgarnesi formaður

Sigurður Guðmundsson Mosfellsbæ gjaldkeri

Aðalsteinn Hjartarsson Akranesi ritari

Linda Udengaard tók svo við af Aðalsteini um áramót þegar hann hvarf til annarra starfa og hefur gengt ritarastarfi síðan.

 

Skýrsla stjórnar

Margt hefur á daga stjórnar drifið síðan við hittumst síðast á vorfundi sem haldinn var í Árborg og tókst með eindæmum vel. Það er eins og það sé ekki liðið ár síðan þá og sennilega er það því að kenna já eða þakka að flestir okkar hafa haft meira en nóg að gera í vinnu sinni við hin margþættu verk á sviði íþrótta- æskulýðsmála

Stjórnin fundaði eins oft og þurfa þótti á tímabilinu eða 6-8 sinnum.

 

Á haustfundi var fundað með fulltrúum menntamálaráðuneytis um margvísleg mál.

Fór sá fundur fram að þessu sinni í Íþróttamiðstöðinni Jaðarsbökkum Akranesi.

 

Í nóvember ákvað stjórnin að skoða hvort félagið ætti að gefa út kynningarbækling FÍÆT þar sem á einum stað væri að finna upplýsingar um félagið og starfsemi þess, sem viðbót við okkar ágætu heimasíðu fiaet.is.

Þetta var ekki hvað síst hugsað til þess að ýta undir að sveitarfélög sem ekki enn hafa ráðið embættismann fyrir málaflokkinn sjái hag sinn af samstarfi við félagið.

Sveitarfélag ætti þannig að taka framförum í stjórnun málflokksins þegar einhver hefur veg hans og vanda innan viðkomandi sveitarfélags og heildaryfirsýn yfir forvarnarstarfið.

Kom þetta líka til tals vegna umræðna í stjórn um verðandi skipulagsbreytingar í mörgum sveitarfélögum landsins þar sem jafnvel heilu sviðin í okkar málaflokki eru lögð niður í kjölfar sameiningarmála og annarrar stjórnsýslulegrar hagræðingar sveitarfélaga. Er þetta í sjálfu sér áhyggjuefni því okkur sem hér erum finnst að full þörf sé fyrir þetta stjórnsýslustig. Sýnist okkur kröfur skattborgara um hærra þjónustustig í íþrótta- og æskulýðsmálum landsins aukast sífellt.

 

Ljóst er að við þurfum að gæta hagsmuna okkar umbjóðenda sem eru íþrótta- og æskulýður landsins og þeirra sem vinna við það starf og verja þær gríðarlegu framfarir sem náðst hafa meðal annars fyrir tilstilli okkar starfs síðasta áratug í málaflokknum.

Í janúar á þessu ári þróuðust svo útgáfumál kynningarbæklingsins enn frekar þegar “forseti Pálma” Björn Helgasonkom með hugmynd um útgáfu afmælisrits þar sem tíundaðir væru aðalfundir félagsins s.l. 20 ár í máli og myndum. Niðurstaðan var sú að steypa þessum tveim hugmyndum saman í eina og gefa út eitt veglegt “ Afmælis og kynningarit FÍÆT “ sem lítur dagsins ljós hér á Ísafirði á 20 ára afmælisfundi félagsins. Ég vil nota tækifærið að þakka Birni Helgasyni og Guðfinnu Hreiðarsdóttur frábært samstarf við að berja ritið saman síðustu vikur jafnframt verð ég að lýsa undrun minni yfir því hve sumum okkar félaga gekk erfiðlega að skila efni inn í bæklinginn.

En “Afmælis og kynningarrit FÍÆT” er eigi að síður staðreynd og verð ég að segja það í þennan hóp að ég er sérstaklega stoltur af þessari framkvæmd fyrir hönd okkar í stjórninni og vona og veit að hann á eftir að þjóna tilgangi sínum, að gera félagið okkar enn mikilvægara og sýnilegra á landsvísu.

 

Mikilvægasta mál stjórnar á tímabilinu var án efa viðræður og vangaveltur um stéttar- og starfskjaramál okkar félagsmanna.

Að undangengnum tveim skoðanakönnunum á launamálum félaga á síðustu árum varð ljóst að það væri hlutverk stjórnar að skoða þessi mál nánar ásamt starfskjaranefnd eins og fram kom á síðasta aðalfundi.

Í fyrra kom skipuð starfskjaranefnd ( Ragnar Ö, Árni og Jón Júl. ) einu sinni saman í Borgarnesi ásamt stjórn og hittist svo aftur nú í febrúar í Kópavogi ásamt stjórn til viðræðna við Eirík Jónsson KÍ og Gísla Tryggvason BHM.

Á fundi þessum kynntu fulltrúar þessara stéttarfélaga félög sín og voru umræður góðar og jákvæðar í okkar garð.

Í kjölfar þessa fundar ákvað stjórn að hitta Eirík Jónsson formann KÍ aftur til nánara skrafs og ráðagerða. Á þeim fundi 15. apríl nánar tiltekið voru málin rædd og kostir og gallar á því hvort FÍÆT ætti samleið með KÍ skoðaðir.  Þá sem sérstakt fagfélag innan þeirra raða líkt og mörg önnur félög sem sinna uppeldismálum t.d. skólastjórafélagið.

Því liggur fyrir að skoða á þessum aðalfundi hvort vilji er fyrir að haga málum á þennan hátt innan félagsins og segja upp í starfsmannafélögum sveitarfélaga þegar samningar þar eru lausir eða láta kyrrt liggja og halda áfram núverandi kjarafyrirkomulagi innan starfsmannafélags sveitarfélaganna því vissulega eru sumir ánægðir með sitt, en aðrir ekki, eins og gengur.

Ég bið menn um að ræða þessi mál sérstaklega hér á eftir og vona að menn tjái sig um þau því við í stjórninni eigum það inni hjá ykkur félagar góðir að þessi mál séu rædd af alvöru hér í dag því við höfum eytt í þetta mál miklum tíma ofan á okkar daglegu störf. 

Til stóð að Eiríkur Jónsson formaður KÍ kæmi á fundinn hér á Ísafirði en því miður var því ekki við komið þar sem hann er á sama tíma á fundi á Svalbarða, af öllum stöðum.

 

Vonbrigði ársins voru að sjálfsögðu að tillaga um Æskulýðslög sem verið hefur lengi í pípunum er enn á vinnslustigi og náði ekki fram að ganga fyrir lok þings nú í vor.

Er málið að mér skilst statt hjá ráðherra menntamála.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þess máls sem þarf að vanda framsetningu á.

Ætla má að stjórn verði send tillagan til umsagnar þegar lengra er komið.

Reynir nú á félaga okkar í menntamálaráðuneytinu að þeir gæti hagsmuna okkar í FÍÆT og þau fjölbreyttu störf sem við erum að vinna að í samfélaginu og snerta lög þessi beint.

 

Segja má að íþróttaiðkun sé í mikilli uppsveiflu á landsvísu meiri þátttaka almenning í heilsurækt og hollu líferni er staðreynd. Það kemur þó væntanlega inn á okkar borð í auknu mæli sú staðreynd að erfitt er að manna stjórnunarstöður í félögunum og væntanlega færist íþróttaiðkun barnameira yfir til sveitarfélaganna enda má það ekki vera forréttindi barnavel efnaðra foreldra að geta æft íþróttir. ‘Eg spái því að fleiri sveitarfélög en þau sem nú þegar veita þessa þjónustu eigi eftir að standa frammi fyrir þessu máli.

 

Öll sveitarfélög vinna að forvarnarmálum og hafa stefnur og markmið að vinna eftir.

Plögg þessi eru þó til lítils ef menn halda að þar með sé verkið unnið. Nei það þarf að koma meira til, lykill að árangri í forvarnarstarfi er að vinna á gólfinu með unglingum og þar kemur félagsmiðstöðvarstarf, íþróttastarf og starfsemi frjálsra félaga sterkt inn. Það er okkar að hlúa að því að það fólk sem vinnur með okkar æskulýð fái fræðslu og sé fært um að vinna þetta mikilvæga starf.

 

Kæru félagar

Ég lít stoltur um öxl á störf stjórnar þetta starfsár og sérstaklega var fróðlegt að hreyfa umræðu um stéttarfélagsmálin. Útgáfa Afmælis og kynningarrits FÍÆT skal verða skrautfjöður starfs okkar í góðri samvinnu við heimamenn hér á Ísafirði. Þrátt fyrir nokkurn kostnað ákvað stjórn einróma að gera þetta myndarlega og 60 síðna litprentaður bæklingur er staðreynd í 500 eintökum.  Bæklingur þessi verður sendur öllum sveitarfélögum landsins og stofnunum sem hafa íþróttir, æskulýðs og forvarnarstarf á sinni könnu.

 

Það hlýtur að vera skylda foreldra sem eiga börn í íþrótta- og æskulýðsstarfi að koma að einhverju leyti að stjórnunarstörfum í sjálfboðaliðsvinnu á meðan barnið stundar starfið.

Eins lít ég á skyldur ykkar félagsmanna til þessa frábæra samstarfs í FÍÆT.

Það hljóta allir félagsmenn að þurfa einhvern tíman að gefa sér tíma til að koma að okkar sameiginlegu málum og gefa sér tíma til að taka þátt í stjórnarstarfi félagsins, félagi sem er sérstaklega sett upp til að deila þekkingu og fróðleik um málaflokkinn manna á milli sem er klár hagur sveitarfélaganna sem við vinnum fyrir.

 

Það er sannarlega eftirvænting hjá okkur öllum að eiga eftir að vera hér saman í Ísafirði næstu daga og ekki hvað síst að hafa hér marga fyrrverandi félaga með okkur á þessum afmælisfundi félagsins – hjartanlega velkomnir kæru félagar og vinir.

 

Eftir að hafa ýtt vagninum í nokkur ár finnst mér komin tími til einhver annar komi í formannssætið og haldi áfram að ýta FÍÆT vagninum með það að markmiði að gera starf félagsins öflugra.  Mörg mikilvæg mál eru framundan sem ekki mega lognast út af.

 

Ég kveð sáttur sem formaður og þakka samstarfsmönnum í stjórn FÍÆT síðustu ár frábært samstarf. 

 

Megi félagið dafna áfram um ókomin ár, nú þegar tuttugu ár eru að baki. 

 

Borgarnesi maí 2005

Indriði Jósafatsson

Formaður FÍÆT