FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Frá formanni Samfés

 

(1. grein af 2.)

Inngangur.

Þátttaka unglinga í starfi á vegum félagsmiðstöðva hefur verið að mælast á bilinu 50-65 % síðustu 10 ár með skýr einkenni aukningar.   Einnig fer aldurshópnum 6-12 ára mjög fjölgandi í starfi félagsmiðstöðva.  Því er ljóst að vegna umfangs þessa starfs þá hefur orðið til öflug fagþróun sem ástæða er til að upplýsa betur.
Einnig er þörf á að taka þennan málaflokk til meiri umræðu en verið hefur.  Í niðurstöðum nýlegrar B.A. ritgerðar frá H.Í. er fjallaði um hvort að málefni frítímans séu á dagskrá í íslenskum stjórnmálum kemur í ljós að "það er ótvírætt að aukin fagmennska brennur heitt á þeim sem starfa innan frítímageirans, bæði hjá hinu opinbera sem og hjá frjálsum félagasamtökum.  Þessar kröfur hafa hins vegar ekki komist á dagskrá hjá stjórnmálamönnum enn sem komið er."  

Fjárhagsrammi

Úthlutun til íþrótta- og æskulýðsmála af heildarskatttekjum sveitarfélaga nam að meðaltali árið 2001 um 7 %.   Án þess að hér sé gerð alvarleg tilraun til að greina þetta nánar þá má þó slá t.d. á að í Reykjavík fari um 2 % skatttekna til æskulýðsmála (þ.á.m. félagsmiðstöðva) og til samanburðar má áætla að um 2,2% fari til íþróttamála.  Það sem eftir stendur fer til reksturs og uppbyggingu almenningsíþrótta, hátíðarhalda o.m.fl.
Fjárstuðningur ríkisins er lítillsem enginn til starfsemi félagsmiðstöðva.  Ekki er heldur um að ræða tekjur á landsvísu í æskulýðsstarfi s.s. lottó.  Samfés (samtök félagsmiðstöðva á Íslandi) sem dæmi eru rekin með félagsgjöldum sem koma frá sveitarfélögunum svo og stuðningi kostenda (einkafyrirtækja) að ógleymdu framlagi þátttakendanna sjálfra.  Hér er þó rétt að árétta að styrkir hafa verið veittir til Samfés frá ráðuneytum í einstök verkefni svo sem til forvarna og ráðstefnuhalds.  Nema þessar upphæðir fyrir árið 2003 um 1,5 milljón kr.  Til samanburðar má líta til þess að önnur landssamtök æskulýðsstarfs fá beina rekstrarstyrki, en Íþrótta- og Ólympíusambandið fær á fjárlögum þetta ár 74,4 milljónir og Ungmennafélag Íslands 42 milljónir í beint framlag.   Samfés hefur lagt fram til menntamálaráðherra erindi um rekstrarstyrk á fjárlögum en fengið neitun.  Þó hefur menntamálaráðherra lýst yfir jákvæðum hug hvað varðar frekara samstarf um afmörkuð verkefni. 

Lagarammi og stefnumörkun

Með tilkomu barnasáttmálans 1989 og svo stofnun embættis Umboðsmanns barna hér á landi hefur alþjóðlegra áhrifa gætt í ríkari mæli.  Í hnotskurn má greina þessi gildi í 2. gr. Barnasáttmálans:  Áhersla er lögð á að virða hvern og einn "án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns".   Í landslögum standa æskulýðslögin næst starfsemi félagsmiðstöðva.  Lögin taka m.a. til  "íþrótta- og bindindisstarfsemi og félags- og tómstundastarfsemi í skólum …  og miðast einkum við æskulýðsstarfsemi fyrir ungmenni á aldrinum 12-20 ára".  Hlutverk sveitarfélaga er skýrt í 10. grein laganna.  "Samband íslenskra sveitarfélaga semur í samráði við sveitar- og bæjarstjórnir og borgarstjórn Reykjavíkur reglur um stuðning þessara aðila við æskulýðsmál, en menntamálaráðherra staðfestir reglurnar. Skal stuðningur þessara aðila m.a. ná til þátttöku í kostnaði við störf leiðbeinenda, tækjakaup og húsnæði."  Ákvæði er snerta félagsmiðstöðvar má finna í 36. grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga frá 1991.  Þar kemur fram fram sú skylda sveitarfélagsins að staðið verði fyrir skipulögðu forvarnarstarfi og vettvangsstarfi (leitarstarfi) en slíkt er víða hluti af starfi félagsmiðstöðva í dag.   Ákvæði æskulýðslaganna um þjálfun leiðbeinenda og menntun æskulýðsleiðtoga hefur ræst með tilkomu náms hjá Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. 
Í Æskulýðsráði ríkisins á sæti æskulýðsfulltrúi ÍTR sem er jafnframt stjórnarmaður félags íþrótta, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) sæti og leggur fram stefnumörkun sem snertir mikið starf félagsmiðstöðva.  Skýrasta og haldbærasta stefnumótun birtist þó aðallega í samþykktum íþrótta- og tómstundaráða viðkomandi sveitarfélags og er hér vitnað í samþykktina frá Reykjavík:
Vettvangur starfs ÍTR er í frítímanum. Í starfinu eru höfð að leiðarljósi uppeldismarkmið og uppeldisgildi frítímans þar sem sérstök áhersla er lögð á að ná til þess æskufólks sem ekki sinnir heilbrigðum tómstundum í frítíma sínum.   ÍTR skapar jákvætt aldursmiðað umhverfi og leggur áherslu á viðfangsefni sem auka sjálfstæði, ábyrgð og virkni þátttakenda í lýðræðislegu starfi.  ÍTR beitir sér fyrir samstarfi við þá aðila sem hlutverki hafa að gegna gagnvart æskufólki, bæði í einstökum hverfum borgarinnar og við stefnumótun í æskulýðsmálum.
Í samþykktinni birtist einnig sú stefnumörkun að áhersla er lögð á fagmennsku starfsfólks, gott samstarf, rannsóknir (þarfagreining þ.á.m.), áhersla á að veita fötluðum börnum þjónustu og að geta veitt íbúum í viðkomandi hverfi upplýsingar um hvaðeina sem stendur til boða á sviði íþrótta- og tómstundamála. 
Í rannsóknum hefur komið fram að á bilinu 30- 50 % unglinga eru sjaldan eða nær aldrei með foreldrum á vökutíma. Í viðhorfskönnunum er einnig staðfest að megináhrifavaldar á lífsgildi ungmenna eru jafningjahópurinn, íþróttaþjálfarar, tómstundaráðgjafar og þeir sem starfa með ungu fólki í frítíma þess.  Því skiptir stefnumörkun íþrótta-, tómstunda-, og æskulýðsráða í sveitarfélögunum afar miklu máli.

Óskar Dýrmundur Ólafsson
Formaður Samfés