FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Aðalfundur FÍÆT 13. apríl 2012. Haldinn á Hótel Hellisandi.

Mættir:, Gísli Rúnar Gylfason, Jóhann Rúnar Pálsson, Alfa Aradóttir, Ragnar M Sigurðsson, Bragi Bjarnason, Kristinn Reimarsson, Steinþór Einarsson, Heiðrún Janusardóttir, Kári jónsson, Guðbrandur J Stefánsson, Hafþór Birgisson, Björn Páll Fálki Valsson, Stefán Bjarkarson, Linda Udengard, Arna Margrét Erlingsdóttir, Eydís Eyþórsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir, Haukur Geirmundsson, Soffía Pálsdóttir, Jóhann Margrét Hjartardóttir, Margrét Sigurðardóttir, Arnar Snæberg Jónsson, María Björk Ingvadóttir, Ingvar S Jónsson, Sigurður Guðmundsson, Indriði Jósafatsson, Erlendur Kristjánsson og Óskar Ármannsson.

Aðrir gestir og fyrirlesarar: Árni Guðmundsson og Jakob Frímann Þorsteinsson

Fundur settur kl. 13:00.

 

1. Setning

Jón Þór Lúðvíksson, forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar setur fundinn og býður félagsmenn hjartanlega velkomna.


2. Kosning fundarstjóra og fundarrita

Formaður leggur til að Árni Guðmundsson verði fundarstjóri og Bragi Bjarnason, ritari. Samþykkt samhljóða.

Formaður óskar eftir því að fræðsluerindi verði færð fyrst á dagskrá. Samþykkt samhljóða.

 

7. Fræðslu- og upplýsingaerindi.

Helga Lind Hjartardóttir heldur kynningu um liðsheild og lífsgleði. Kemur inn á starfsgleði, samvinnu, mikilvægi þess að starfsfólk sé haft með í ráðum við stórar ákvarðanatökur sem snerta þá. Fjallar um samstarf fagaðila á mismunandi vettvangi sem skarast t.d. í umgjörð kringum börnin.

Árni Guðmundsson kynnir rannsókn sem hann og Gísli Árni Eggertsson ætla að gera um viðhorf  starfsmanna til þróunar fagumhverfis, menntunar, samstarfs í nær umhverfi og breytinga á starfsemi í æskulýðsmálum.


3. Skýrsla stjórnar

Gísli Rúnar Gylfason, formaður FÍÆT flytur skýrslu stjórnar:

Undanfarið ár hefur að mörgu leyti verið viðburðarríkara en undanfarin ár. Mörg mál hafa verið unnin og stjórnin fundaði sjö sinnum á starfsárinu.

Á aðalfund í Fjallabyggð 6. maí 2011 var eftirfarandi stjórn kosin:

Bjarni Gunnarsson (formaður), Jóhann Rúnar PálssonRagnar Sigurðsson, Bragi Bjarnason og Gísli Rúnar Gylfason (sem var ekki kosinn þar sem hann var að klára seinna ár af tveimur)
Varamenn: Alfa Aradóttir og Ragnar Örn Pétursson.

Á fyrsta fundi í ágúst var skipting verka stjórnar þannig að Gísli Rúnar varð áfram gjaldkeri og Bragi tók að sér stöðu ritara.

Eitt af fyrstu verkefnum stjórnar var að vinna í frekari samstarfi þeirra aðila sem starfa á vettvangi frítímans. Drög að samstarfssamningi FÍÆT, FFF, Samfés og SFSÍ hafa nú verið gerð og verða lögð hér fyrir aðalfundinn í dag. Umsókn liggur fyrir í æskulýðssjóði til fjármögnunar á samstarfinu (þróuninni), en þegar þetta er ritað hefur svar ekki borist.

Einnig var það ósk aðalfundar að kanna möguleikann á fræðsluferð erlendis. Stjórnin van þetta verkefni og leggur hér á eftir fram drög að ferð til Svíþjóðar næsta haust.

Haustfundur FÍÆT og Mennta- og menningarráðuneytisins var svo haldinn 22. september og þótti takast með ágætum. Mjög góð erindi vor á fundinum og hefur stjórn FÍÆT og ráðuneyti bæði lýst yfir vilja sínum til að halda slíka fundi áfram á haustin.

Bæklingur FÍÆT var sendur út á öll sveitarfélög landsins og kláraðist upplagið við það. Ákveðið var að prenta önnur þúsund eintök og eru geymd hjá formanni.

Í lok september tilkynnti Bjarni Gunnarsson, formaður FÍÆT að hann myndi láta afstörfum sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar 1. október, eftir 2 1 ár í starfi. Honum eru þökkuð sérstaklega störf í þágu FÍÆT og málaflokksins í heild á undanförnum tveimur áratugum og er honum óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Eftir brotthvarf formanns voru góð ráð dýr og þurfti því að endurskipuleggja stjórnina. Gísli Rúnar, tók að sér formennsku og Alfa kom inn í aðalstjórn og tók að sér gjaldkerann á fundi í október.

Stjórnin ákvað í október að bregðast við ný útgefinni íþróttastefnu Mennta- og menningarmálaráðuneytinu með þeim hætti að fagna slíku riti, en um leið að óska eftir því að ráðuneytið myndi skoða gerð slíkrar stefnu fyrir æskulýðshlutann. Var slíkt erindi sent inn í ráðuneyti í samstarfi við Samfés og FFF. Erindið er enn í vinnslu í ráðuneytinu.

Eitt af stærri málum sem hefur verð unnið og er hér til frekari vinnslu og umræðu í dag er gerð handbókar málaflokkinn. Fékk stjórnin Ólaf Proppe og Jakob Frímann Þorsteinsson til fundar í janúar. Ólafur átti mikinn þátt í gerð handbókar fyrir skátastarfið og fór hann fyrir það ferli með stjórn. Jakob Frímann kom fyrir hönd Háskóla Íslands og er stefnt á frekara samstarf með Háskólanum í þessari vinnu. Það verður því gaman að sjá hvað verður úr hér í dag.

Hækkandi rekstarkostnaður FÍÆT undanfarið ár er að mörgu leyti góðar fréttir. Þar sem þessi hækkun skýrist fyrst og fremst af því að stjórnin hefur verið að starfa og funda mun meira en undanfarin ár og er þar ferðakostnaður stjórnar stærsti hlutinn. Einnig útgáfa á bækling og aðkoma að ýmsum málum, s.s. haustfundinum. Því þarf að íhuga hversu miklar tekjur FÍÆT þarf að hafa og hvaðan þær eiga að koma. Það er ljóst að ef við ætlum að fara í vinnu við handbókargerð og vera vel marktæk á vettvangi málaflokksins þá mun það kosta.

Síðasti fundur stjórnar var svo haldinn í marsmánuði í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem stjórn hitti starfsmenn ráðuneytisins (Erlend, Óskar og Valgerði).
Þar var farið yfir stöðu mála, rætt um samstarf og fleira. Það er mikill vilji fyrir góðu og víðtæku samstarfi í málaflokknum bæði hjá stjórn FÍÆT sem og ráðuneytinu.

Önnur verkefni FÍÆT:

Bragi Bjarnason hefur verið tilnefndur af hálfu FÍÆT í Mannvirkjanefnd mennta- og menningarmálaráðuneytis

Jóhann Rúnar Pálsson hefur verið tilnefndur af hálfu FÍÆT í hóp vegna tilnefningar á besta BA verkefni við Menntavísindasvið HÍ

Ragnar M Sigurðsson hefur starfað sem fulltrúi FÍÆT í samfo (samstarfsráð um forvarnir) á árinu, sem kemur að verkefninu „vika 43/vímuvarnarvika"
Ragnar tók við af Örnu Margréti Erlingsdóttir og eru þeim þökkuð vel unnin störf sem fulltrúar félagsins.

Að lokum vil ég þakka stjórn FÍÆT fyrir samstarfið á starfsárinu sem og ykkur öllum fyrir ánægjuleg samskipti. Vil ég einnig þakka þeim sem tóku að sér verkefni fyrir hönd félagsins á liðnu ári fyrir þeirra framlag.

Sigrúnu og Snæfellsbæ þakka ég góðar viðtökur og hlakka mikið til helgarinnar með ykkur öllum.

Ég er sannfærður um að FÍÆT eigi eftir að gera stóra hluti og vona ég svo sannarlega að ég fái að vera hluti af þessum frábæra hópi sem lengst.

Fyrir hönd stjórnar FÍÆT starfsárið 2011-2012.

Gísli Rúnar Gylfason
Formaður FÍÆT


4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram

Gísli Rúnar kynnir ársreikningana félagsins. Fram kom að rekstur félagsins hafi aukist á síðasta ári og má rekja það til fleiri funda stjórnar og útgáfu á kynningarbæklingi. Hagnaður ársins 2011 er 166.947 kr. og leggst sú tala við sjóð félagsins sem stendur í 2.030.250 kr. þann 31.desember 2011.


5. Umræður um skýrslu og ársreikninga

María Björk spyr um æskulýðsstefnuna og hvort aðkoma FÍÆT væri einhver að henni hjá Menntamálaráðuneytinu. FÍÆT er boðið og búið til að aðstoða. Margrét Sigurðardóttir, fulltrúi í Æskulýðsráði upplýsti að þessi vinna væri hafinn.

Linda Udengard spyr hvort menntamálaráðuneytið styðji verkefnið? Erlendur Kristjánsson, fulltrúi frá mrn fer yfir aðkomu ráðuneytisins. Segir að æskulýðsráðið hafi ekki sent frá sér neitt um hvernig þessi vinna eigi að fara fram. Tekur fram að mikilvægt sé að allir komi að þessu.

Margrét upplýsir að ráðið sé nýbúið að funda með ráðherra sem tók jákvætt í verkefnið og ráðið lítur svo á að ráðuneytið sé jákvætt fyrir verkefninu.

Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fram saman til samþykktar. Samþykktir samhljóða.


6. Lagabreytingar

Formaður leggur til f.h. stjórnar eftirfarandi lagabreytingu á 7.grein:

7. grein var:

Aðalfundur félagsins heitir Pálmafundur, er æðsta vald í málefnum þess og skal hann haldinn í maí ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Boða skal aðalfund með minnst mánaðar fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Setning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarrita.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
5. Umræður um skýrslu og ársreikinga.
6. Lagabreytingar.
7. Fræðslu- og upplýsingaerindi.
8. Kosning stjórnar, forseta og skoðunarmanna.
9. Ákvörðun um árgjald.
10. Önnur mál.

 

7. grein verður:

Aðalfundur félagsins heitir Pálmafundur, er æðsta vald í málefnum þess og skal hann haldinn eigi síðar en 31. maí ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Boða skal aðalfund með minnst mánaðar fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Setning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarrita.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
5. Umræður um skýrslu og ársreikinga.
6. Lagabreytingar.
7. Fræðslu- og upplýsingaerindi.
8. Kosning stjórnar, forseta og skoðunarmanna.
9. Ákvörðun um árgjald.
10. Önnur mál.

Lagabreytingin lögð fram til atkvæðagreiðslu. Samþykkt samhljóða.

 

8. Kosning stjórnar, forseta og skoðunarmanna

Formaður fer yfir þau framboð sem komið hafa inn. Bragi Bjarnason og Ragnar Sigurðsson voru kosnir árið 2011 til tveggja ára og sitja báðir áfram en kjósa þarf um formann og tvo meðstjórnendur.

Framboð til formanns

 

  • Gísli Rúnar Gylfason

     

Framboð til stjórnar

 

  • Jóhann Rúnar Gylfason

     

     

  • Alfa Aradóttir

     

Fundarstjóri auglýsir eftir fleiri framboðum . Engin koma fram og eru því öll framboð samþykkt með lófaklappi.

Einnig voru kosnir varamenn og skoðunarmenn

Sem varamenn voru þau Ragnar Örn Pétursson og Sigrún Ólafsdóttir kosinn með lófaklappi og sem skoðunarmenn þeir Haukur Geirmundsson og Jón Júlíusson.


9. Ákvörðun um árgjald

Stjórn FÍÆT leggur til að árgjaldið verði hækkað úr 20.000 kr. í 25.000 kr. Félagið vill halda áfram að vaxa og miðað við þau verkefni sem liggja fyrir þá sé þetta nauðsynleg hækkun. Samþykkt samhljóða.

Kaffipása kl. 14:30.


10. Önnur mál.

 

  1. Samstarfssamningur FÍÆT, FFF, Samfés og SFSÍ

     

    Formaður kynnir samninginn og fer stuttlega yfir innihald hans. Markmiðið er að styrkja samstarfið og auka faglegt umhverfi félaganna.

     

    Linda Udengard leggur til að tekið verði út ákvæði í 2.gr. um að fulltrúar annarra félaga fái seturrétt á aðalfundi með tillögurétt og málfrelsi. Fleiri taka undir þessa tillögu.

    Ingvi og Steindór spyrja um önnur félög eins og forstöðumenn íþróttamannvirkja og golfvalla.

     

    Stjórninni falið að vinna málið áfram og taka til greina þær ábendingar og tillögur sem komu fram á fundinum. Samþykkt samhljóða.

     

     

  2. Fræðsluferð til Svíþjóðar 19.-23. Nóvember

     

    Gísli Rúnar fer yfir ferðatillhögun. Fram kom að stjórnin teldi að 15 manns þyrfti til að ferðin væri farinn. Samþykkt að stjórnin vinni málið áfram.

     

     

  3. Skráningarkerfi í íþróttahús og önnur mannvirki – umræður

     

    Bragi fylgir úr hlaði umræðu um rafræn skráningarkerfi. María Björk kynnir TÍM kerfið sem Skagafjörður notast við. Fram kom að félagsþjónustu-, frístunda- og fræðslusvið ynnu saman að þessu og með því væri hægt að ná fleiri börnum inn í starfið. Eru með 95% þátttöku í öllum Skagafirði. Skráningarkerfið unnið í samvinnu við fyrirtækið Stefna. Foreldrar geta skipulagt starfið fyrir sumarið og veturinn. Kostnaður við kerfið er 11.300 á mánuði en stofnkostnaður er einhver.

     

    Kári fer yfir sýnar hugmyndir gagnvart skráningu á notkun íþróttamannvirkja. Hvernig er verið að nýta mannvirkin og hverjir eru að nota hvern tíma. Hann upplýsir að hann hafi verið í viðræðum við Mentor og Advania um lausnir í skráningarkerfi og stundatöflugerð.

     

    Steindór fjallar aðeins um reynslu Reykjavíkur í rafrænni skráningu og tekur undir með Kára um mikilvægi þess að vita hvernig nýting á íþróttamannvirkjum er.

     

    Sigurður Guðmundsson fjallar um Curron kerfið sem Mosfellsbær er að nota. Eru með sérstakt íbúakort sem getur virkað á hvaða þjónustu sem er en þeir nota það í sundlaugunum. Steindór tekur undir kosti Curron kerfisins.

     

     

  4. Handbókargerð fyrir málaflokkinn – skipt í hópa, teknar saman tillögur og umræða.

     

Alfa Aradóttir kynnir hugmyndir að handbókargerð fyrir tómstundamálaflokkinn. Fram kom hjá Ölfu að málaflokkurinn væri viðkvæmur þar sem hann fellur ekki undir bundna þjónustu og það hefur sýnt sig í niðurskurði síðustu ára. Mikilvægt væri að skilgreina starfið betur og leggja sterkan grunn að því hvernig við sjáum málaflokkinn fyrir okkur.

 

Jakob F. Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskóla Íslands, fer yfir hvað þurfi að gera til að verkefnið verði að veruleika.

 

  • Um hvað á að skrifa? Verkáætlun.

     

     

  • Hugmyndafræði, starfsreglur, viðmið, yfirsýn, uppruninn

     

     

  • Markhópur 6-18 ára, eldri borgarar, embættismenn, kjörnir fulltrúar o.fl.

     

     

  • Samstarfsaðilar

     

Settir upp vinnuhópar sem komu með hugmyndir að vinnunni. Alfa og Jakob vinna áfram með þær hugmyndir sem komu fram. Þeim hugmyndum verði síðan komið til stjórnar FÍÆT fyrir Haustfund 2012. Samþykkt samhljóða.

 

  1. Soffía Pálsdóttir – félagsmál

     

    Setur fram hugleiðingar frá forstöðumönnum félagsmiðstöðva í hverfum Reykjavíkur. Finnast þeir ekki alveg vera á réttum stað faglega eftir skipulagsbreytingar í Reykjavík. Málinu vísað til stjórnar FÍÆT

     

    Minnist einnig á fjárframlög til félagsmiðstöðva. Lýsir yfir miklum áhyggjum um þá þróun sem samantektin frá menntamálaráðuneytinu sýnir en hún er að framlög til þessa málaflokks hafa minnkað mikið sl. ár.

    Erlendur ætlar að senda samantektina á félagsmenn.

     

    Lagt til að stjórnin sendi frá sér ályktun um þetta. Samþykkt samhljóða.

     

     

  2. Arnar – Þakkir til félagsins og félagsmanna

     

    Þakkar félaginu og félagsmönnum kærlega fyrir hjálpina frá því hann byrjaði. Tekur fram hvað það sé mikilvægt að geta leitað í reynslu eldri félagsmanna.

     

     

  3. Næsti aðalfundur 2013

     

Sigrún tilnefnir Ölfus og Hveragerðisbæ sem gestgjafa næsta aðalfundar árið 2013. Samþykkt samhljóða að þau verði forsetahjón.

Formaður þakkar fyrir góðan fund og býður öllum góðrar skemmtunar það sem eftir lifir helgar.

Fundi slitið kl. 18:00.