FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Bragi Bjarnason, formaður FÍÆT býður alla velkomna á aðalfundinn og minnist Ragnars Arnars Péturssonar frávarandi formanns og biður fundargesti að rísa úr sætum og minnast Ragnars í mínútu þögn.

 

1.      Kosning fundarstjóra og fundarritara

Bragi Bjarnason, formaður leggur til að Árni Guðmundsson verði fundarstjóri og Soffía Pálsdóttir fundarritari aðalfundar. Samþykkt samhljóða.

 

Fundarstjóri leggur til að allir fundarmenn kynni sig sem allir gera.

 

2.      Fræðsluerindi

-          Jóhann Árni Ólafsson, frístundaleiðbeinandi

o   Forvarnarverkefnið Netið

o   Fyrirkomulag æfingagjalda í Grindavík

 

-          Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja

o   Kynning á Reykjanes UNESCO Global Geopark

 

-          Ragnar Þorsteinsson, verkefnastjóri starfshóps um gerð viðmiða vegna starfs frístundaheimila. Starfshópurinn starfar á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

o   Kynning á vinnu starfshópsins, kynnti niðurstöðu könnunar sem gerð var meðal skólastjóra, fræðslustjóra og íþrótta-, æskulýðs og tómstundafulltrúa í vetur. Sjá glærur á heimasíðu félagsins.

 

3.      Skýrsla stjórnar 2016-2017

Bragi Bjarnason, formaður FÍÆT les upp skýrslu stjórnar. (Fylgiskjal 1)

 

4.      Ársreikningar FÍÆT.

Ragnar Sigurðsson fer yfir ársreikninga félagsins. Fram kom að tekjur félagsins árið 2016 hefðu verið 1.677.151 kr. Gjöld voru á móti 843.279 kr. Staða félagsins er mjög góð en 3.997.303 kr. eru til á reikningum félagsins.

 

5.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga

 

Heiðrún hrósar fundarmönnum um vinnu stjórnar varðandi stefnumótunarvinnu  og góðan haustfund.

Jón Júlíusson hrósar góðri stöðu fjármála en leggur áherslu á að nýta fjármunina í að fræðslu og skoðunarferð fyrir stjórnendur með áherslu á stjórnsýslu sem myndi nýtast vel.

 

           

           

 

6.      Skýrsla stjórnar og ársreikningar lögð fram til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

 

7.      Stefnumótun félagsins kynnt

Bragi Bjarnason og Soffía Pálsdóttir kynna vinnu við stefnumótun félagsins og drög að stefnumótuninni.

Esther: Minnir á mikilvægi þess að bæta við undir tómstundanefndina að hafa ungmennahús og starfsemi fyrir eldri borgara.

Jón Júlíusson telur of mikið af aðgerðum fyrir næsta starfsár. Telur betra að leggja frekar áherslu á 2-3 aðgerðir.

Einnig spyr hann hvernig félagið ætlar að beita sér fyrir lögverndun á starfsheitinu íþrótta- og tómstundafulltrúi sbr. stefnumótunarskjal undir málaflokknum  stjórnunarsvið.

 

Gísli Árni  spyr hvort lýðheilsa  sé hlutverk FÍÆT og leggur áherslu á mikilvægi þess að aldursbil  þjónustuþega sé skýrt.

Gísli Árni spyr hvort að skoðað hafi verið hve margir félagsmenn sinni bæði íþrótta- og tómstundamálum og hverjir eru eingöngu með annan málaflokkinn. Leggur til að næsta stjórn fari í þá vinnu.

Ellert spyr hvort  stefna FÍÆT varðandi íþróttamálin sé enn ein stefnan sem á að fara eftir?

Þorsteinn spyr hvort félagið eigi sín gildi og leggur til að það verði unnið á næsta haustfundi. Einnig telur hann mikilvægt að ramma inn framtíðarsýn félagsins og hrósar þeirri vinnu sem búið er að vinna.

Soffía velti því upp hvert er hlutverk FÍÆT í lýðheilsumálum  í tengslum við ábendingar Gísla Árna og að þetta þyrfti að skoða í samhengi við sífellt stærra hlutverk félagsmanna í FÍÆT varðandi heilsueflandi samfélög, sem mörg sveitarfélög eru að taka þátt í.

Bragi þakkaði góðar ábendingar og sagði að stefna FÍÆT og hlutverk sé að vera styðjandi við stefnur sveitarfélaga og ríkis sem tengjast málaflokknum.

 

Stjórnin tekur þessar góðu ábendingar inn í áframhaldandi vinnu við stefnu félagsins.

 

8.      Lagabreytingar.

Bragi Bjarnason, formaður leggur fram lagabreytingar, sem sendar voru til fundarmanna með tölvupósti til félagsmanna 27. apríl 2017

 

Umræður um lagabreytingar:

Liður 1:

Guðbrandur ræddi um hvort ekki væri betra að hafa nafnið „Stjórnendur í frítíma- og íþróttamálum“ í sveitarfélögum í stað Íslands.

Gísli Árni sagði að ástæða þess að í eldri titli væri Íslands væri til að ná inn til ráðuneytisins.  Einnig nefndi hann að ekki ætti að eltast við stöðuheiti samtímans því þau séu í sífelldri endurskoðun.

Bragi útskýrði að tillaga stjórnar er að leggja til nafnið frítíminn því það er heiti er víðtækt, notuð á ráðstefnu okkar fyrir 2 árum, handbókarnefndin er að nota orðið frítími í stað tómstunda. Verkefni félaga FÍÆT eru margslungin og félagar FÍÆT tilheyra fleiri fagfélögum.

Jóni finnst of bratt að fara í nafnabreytingar og leggur til að FÍÆT nafnið haldi en undirtitill mæti breytast. Einnig telur hann að nafnið FÍÆT hafi öðlast gildi og þekkist innan sveitarfélaga.

Heiðrún, ekki sammála því að verið sé að elta stöðuheiti hvers tíma en finnst tillaga Jóns koma til greina þ.e.  að leggja til að félagið heiti FÍÆT sem eiginnafn en heiti félag stjórnenda í frítíma- og íþróttamálum.

Birgir telur að yngri hópurinn í FÍÆT vilji leggja áherslu á að fá stjórnenda- orðið inn í nafnið í stað fulltrúa- orðið.

Esther er sátt við að tala um frítíma- og íþróttamál sem er aðalstarfsvettvangur en finnst skammstöfunin hvort sem er FÍÆT eða SFÍ bæði slæm.

Guðbrandur telur að það sé rangt að við getum notað Ísland í titlinum.

Magga leggur til að fresta nafnabreytingu og hafa nafnasamkeppni og látum hanna logo.

Jón Júl leggur til að nafnið FÍÆT verði óbreytt en undirtitill verði: Stjórnendur í frítíma- og íþróttamálum hjá sveitarfélögum og ríki á Íslandi.

Umræður voru um greinar nr.  2-4, snérust meira um orðalag, sem sátt náðist um á fundinum.

Grein 5.

Rætt um hvort setja eigi kröfu um lágmarksþátttöku á aðalfundi eða ekki. Rætt um hvort það eigiað bæta við nýjum félögum/inntaka nýrra félaga. Spurning hvort að skerpa eigi á þessu í lögunum þ.e. hvort viðkomandi sem sækir um aðild sé gjaldgengur. Spurning hvort svona viðbót ætti betur við í grein 2. Aðildarumsóknir skal senda stjórn félagsins sem ber umsóknina undir aðalfund, undir liðnum önnur mál.

Grein 6.

Magga telur að málsgrein um kostnað við stjórnarfundi eigi ekki að vera í lögunum heldur ákvörðun stjórnar.

Grein 7.

Mikilvægt að hafa 3 vikur í stað 4 eins og lagt er til í breytingunum þ.e.  4 vikur ganga ekki vegna fundarboðunarreglu á aðalfund.

Hér fyrir neðan má sjá fyrri lög og síðan þau lög sem samþykkt voru á aðalfundinum.

 

9.      Kosning stjórnar

 

a.       Stjórnarkjör. Kjósa þarf um 3 sæti í stjórn en Ragnar Sigurðsson er að klára sitt seinna ár og Soffía Pálsdóttir og Linda Udengárd hafa óskað eftir að hætta í stjórn. Bragi var kjörinn formaður í fyrra til tveggja ára, auk Gísla Rúnars.

Bylgja var kosin til eins árs. Kosnir til 2 ára Ragnar Sigurðsson og Stefán Arinbjarnarson.   Í stjórn sitja því: Bragi formaður, Gísli Rúnar, Ragnar, Stefán og Bylgja.

 

b.      Varastjórn. Kosið um tvo í varastjórn til eins árs. Rut Sigurðarsdóttir og Bjarki Ármann Oddsson

c.       Kosið í frítímanefnd og íþróttanefnd: 2 í hvora nefnd, formaður kemur úr stjórn. Jón Júlíusson og Kári voru kosnir í íþróttanefnd. Í Frítímanefnd: var Heiðrún kosin en engin bauð sig fram tilviðbóta og því tilnefndi stjórn  annan fulltrúa. Fræðslu og upplýsinganefnd: kosin voru Margrét Sigurðardóttir  og Þorsteinn. Samþykkt samhljóða með lófaklappi tilnefningar í ofangreindar nefndir.

d.      Skoðunarmenn. Lagt til að Haukur Geirmundsson og Jón Júlíusson verði skoðunarmenn reikninga. Samþykkt samhljóða með lófaklappi.

e.       Ákvörðun um árgjald, tillaga um óbreytt gjald 25 þús. krónur.

 

10.  Önnur mál    

*Gísli Árni með tillögu til stjórnar um að félagsmenn sem breyta um starfsvettvang geti haldið áfram tengslum við félagið. Þessari tillögu vísað til stjórnar.

*Gísli Rúnar og Magga sögðu frá ferð félagsmanna til Eistlands og þau senda skýrslu  um ferðina til félagsmanna. Í ferðinni í Eistlandi kynntust þau konu frá Ástralíu sem var að segja frá áhugverðum verkefnum og var að hvetja félagsmenn til að koma og heimsækja Ástralíu. Möguleg hugmynd að næstu ferð.

*Lagt er til að fræðslu og upplýsinganefnd verði falið að skoða næstu fræðsluferð  með áherslu á stjórnun og stjórnsýslu sem hentar félagsmönnum FÍÆT. Samþykkt að vísa til stjórnar að koma í farveg.

*Tillaga Möggu að efnt verði til nafnasamkeppni að nýju nafni Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og í framhaldi verði búið til „logo“ fyrir nýju nafni félagsins. Vísað til umsýslu stjórnar.

*Gissur Ari kynnti sig en hann er að taka við af Agnesi í Stykkishólmi sem íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúi.

 

Fundagerð ritaði Soffía Pálsdóttir

Fylgiskjal 1

Skýrsla stjórnar FÍÆT starfsárið 2016 – 2017

Starfsár þessarar stjórnar sem nú er að klárast hefur verið mjög fróðlegt og skemmtilegt enda stór mál í gangi innan félagsins.

Við þurftum þó líka að kveðja góðan félaga þegar Ragnar Örn Pétursson, fráfarandi formaður FÍÆT varð að játa sig sigraðan eftir stutta baráttu við krabbamein. Við minnumst Ragnars fyrir allt það góða starf sem hann vann fyrir félagið en hann var alltaf tilbúin að taka að sér verkefni fyrir FÍÆT og aðstoða okkur sem vorum enn að komast inn í starfsumhverfið. Blessuð sé minning hans og ég efast ekki um að hann er með okkur hér í anda núna. 

Ný stjórn var kosin á síðasta aðalfundi þar sem Bragi Bjarnason var kosinn formaður til tveggja ára og þau Linda Udengárd, Soffía Pálsdóttir og Gísli Rúnar Gylfason voru sömuleiðis kosin í stjórn til tveggja ára. Ragnar Sigurðsson hóf sitt seinna ár í stjórn og Stefán Arinbjarnarson og Agnes Sigurðardóttir komu inn í varastjórn.

Ný stjórn beið ekki boðanna og fundaði strax í júní til að leggja drög að næsta starfsári. Verkaskiptingin var þannig að Ragnar hélt fast í tékkheftið og Soffía kom inn í ritarastöðuna. Gísli Rúnar og Linda tóku síðan að sér meðstjórnandann. Gísli Rúnar tók einnig að sér að sjá um heimasíðu félagsins ásamt því að halda utan um félagatalið og tölvupóstlistann sem er ein af okkar mikilvægustu samskiptaleiðum.

Stjórnin setti upp framkvæmdaáætlun til að gera starfsárið markvissara og voru þrjú meginmál á dagskrá fyrir starfsárið.

-         Undirbúningar að fræðsluferð

-         Stefnumótun félagsins

-         Haustfundur og Aðalfundur

Ákveðið var síðan að boða fulltrúa úr varastjórn á stjórnarfundi þetta árið vegna stefnumótunarvinnunnar.

Stefnmótunarvinnan hefur án efa verið stærsta verkefni stjórnarinnar þetta árið en ákveðið var sl. haust að semja við Janus Guðlaugsson, lektor við Háskóla Íslands um að stýra stefnumótunarvinnu félagsins. Janus lét ekki sitt eftir liggja í þessari vinnu og stýrði henni fagmannlega í allan vetur. Bragi og Soffía voru tengiliðir stjórnar við Janus og funduðu með honum í upphafi til að leggja fram hugmyndir stjórnarinnar að verkefninu. Janus stýrði svo verkefnavinnu á haustfundinum og nýtti efnið sem kom þar fram í vinnuna. Janus fundaði reglulega með stjórninni og sennilega fannst sumum þeir vera komnir á skólabekk hjá Janusi þegar gefinn var deadline á að skila inn upplýsingum.

Ekki er hægt að segja annað en verkefnið hafið gengið í heildina vel og er afraksturinn hingað til, hér á borðum og verður til umræðu á eftir en lokafrágangur stefnumótunarinnar klárast að loknum aðalfundi. 

Haustfundurinn þetta starfsárið var að mestu tileinkaður stefnumótunarvinnunni en fundurinn var haldinn í Hlöðunni í Gufunesi fimmtudaginn 13. október. Byrjað var á fræðslufyrirlestrum um mannauðsmál og handbókargerðina og í framhaldinu fengum við kynningu á tímaskráningarkerfinu Stund sem er ætlað fyrir íþróttamannvirki. Að loknum hádegisverði var síðan unnið í stefnumótuninni undir dyggri stjórn Janusar. Óformlegar umræður á haustfundinum snérust að hluta um aukið upplýsingaflæði og einföldun á þeim. Þegar búið var að ákveða hvort nota ætti orðið google docs eða google drive (eða var þeirri umræðu ekki lokiðJ) setti hann Þorvaldur upp nokkur skjöl sem hann deildi með félagsmönnum og vill stjórnin hvetja alla að nýta sér þau meira enda þægilegra en að leita uppi tölvupósta þegar margir eru að svara um þessi praktísku atriði eins og gjaldskrár eða laun vinnuskóla.   

Á síðasta aðalfundi var ákveðið að skipa í ferðanefnd sem myndi skipuleggja fræðsluferð á erlenda grund haustið 2016 eða vorið 2017. Fljótlega var ákveðið að stefna á vorið 2017 og varð Eistland fyrir valinu en það hentaði mjög vel að tengja saman ferð FFF og FÍÆT. Ferðin var skipulögð dagana 18. – 22. apríl sl. og fóru um 15 FÍÆT félagar ásamt félögum úr FFF. Ferðin var vel heppnuð og nýttist félögum vel.

Umræða kom upp hjá stjórninni á 4. fundi í febrúar sl. þegar ljóst var að fjöldi félagsmanna í fræðsluferðinni væri ekki meiri að skoða skipulagningu annarrar fræðsluferðar fljótlega og setja þá stjórnunarhlutann í forgrunn. Ákveðið var að taka þetta til umræðu á næsta aðalfundi.  

Vinna við gerð handbókarinnar „Frítími og fagmennska – rit um málefni frítímans“ sem Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir hafa haldið utan um hefur gengið vel en verkefnið er stórt og því hefur það tekið lengri tíma en ráð var gert fyrir. Vinna við lokaskrif er í gangi og ætti því að styttast í endamarkið á verkefninu sem á án efa eftir að nýtast okkar félagsmönnum mjög vel í starfi.  

Nokkrir nýir félagsmenn hafa bæst við hópinn á sl. ári og eru þau öll boðin velkomin í hópinn en félagar eru nú 51 talsins.

Undirbúningur aðalfundar hér á Reykjanesinu hefur verið í góðu samstarfi við félaga okkar á svæðinu, þau Guðbrand, Björg, Hafþór, Stefán og Rut og er þeim þakkað fyrir þeirra vinnu. 

Stjórnin vill annars þakka ykkur öllum fyrir samstarfið á árinu. Þetta er góður félagsskapur sem auðvelt er að leita til með fyrirspurnir og ráðleggingar og er það ómetanlegt í störfum okkar.

                                                         Stjórn FÍÆT

 

 

 Eldri lög Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (Samþykkt í Snæfellsbæ 13. apríl 2012)

 

1. grein.
Nafn félagsins er Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi Skammstafað: F.Í.Æ.T.
Samtökin hafa heimili og varnarþing hjá formanni hverju sinni.

2. grein.
Rétt til aðildar að félaginu eiga íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúar hjá ríki og sveitarfélögum eða þeir sem eru í forsvari fyrir þessa málaflokka, þó starfsheiti þeirra sé annað.

3. grein.
Tilgangur og markmið félagsins eru m.a.:
- að móta þá heildarstefnu sem unnið skal eftir á sviði íþrótta- æskulýðs- og tómstundamála.
- að auka samstarf meðal félagsmanna.
- að stuðla að aukinni þekkingu og fræðslu meðal félagsmanna.
- að stuðla að aukinni samvinnu við erlenda samstarfsaðila
- að standa að fræðslu til almennings um gildi íþrótta og æskulýðsstarfs
- að stuðla að samræmingu og hagkvæmni við undirbúning og framkvæmdir sem tengjast íþrótta- og æskulýðsmannvirkjum.
- að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem vinna að hvers konar forvörnum.
- að stuðla að samræmingu íþrótta- tómstunda- og skólastarfs.
- að eiga samskipti við ríki, sveitarfélög og félagasamtök vegna íþrótta-, æskulýðs og tómstundamála.

4. grein.
Til að vinna að markmiðum sínum heldur félagið árlega fundi vori og að hausti sem eiga að vera í senn fræðandi og vettvangur til að ræða sameiginleg málefni. Vorfundur skal að öllu jöfnu haldinn á starfssvæði forseta og mun það vera aðalfundur.

5. grein.
Stjórn félagsins skipi, formaður kjörinn til tveggja ára, fjórir meðstjórnendur, tveir kjörnir til tveggja ára, tveir kjörir til eins árs. Þeir skipti með sér verkum, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur.  Kjósa skal tvo varamann til eins árs í senn.

6. grein.
Á árlegum vorfundi félagsins skal kosinn forseti, sem ber sæmdarheitið forseti Pálma. Hlutverk hans er að annast undirbúning næsta vorfundar og sjá um framkvæmd hans.
Formaður og stjórn félagsins er forseta til aðstoðar í störfum hans fyrir félagið.
Fráfarandi forseti skal leggja fram tillögu um næsta forseta.


7. grein.
Aðalfundur félagsins heitir Pálmafundur, er æðsta vald í málefnum þess og skal hann haldinn eigi síðar en 31. maí ár hvert. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Boða skal aðalfund með minnst mánaðar fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Setning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarrita.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
5. Umræður um skýrslu og ársreikinga.
6. Lagabreytingar.
7. Fræðslu- og upplýsingaerindi.
8. Kosning stjórnar, forseta og skoðunarmanna.
9. Ákvörðun um árgjald.
10. Önnur mál.


8. grein.
Lögum þessum er einungis hægt að breyta á aðalfundi og með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar skuli berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund.

9. grein.
Lög þessi öðlast gildi við samþykkt aðalfundar. Jafnframt falla úr gildi fyrri lög.


Lög félagsins voru samþykkt á Ísafirði 10. maí 1997.
Breytingar á 5. grein gerð í Reykjavík 23. maí 2001.
Breytingar á 8. grein gerð á Akureyri 10. maí 2002.

Breytingar á 5. grein gerð á Ísafirði 20. maí 2005.

Breytingar á 7. grein gerð í Snæfellsbæ 13. apríl 2012

 

 

 Ný lög Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (Samþykkt 12. maí 2017 í Grindavík)

1. grein.
Nafn félagsins er Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi Skammstafað: F.Í.Æ.T.
Samtökin hafa heimili og varnarþing hjá formanni hverju sinni.

 

2. grein.
Rétt til aðildar að félaginu eiga þeir stjórnendur, sem hafa umsjón með íþrótta- og frítímamálum hjá ríki og sveitarfélögum, þó starfsheiti þeirra séu ekki þau sömu.  

 

3. grein -
Tilgangur og markmið félagsins eru m.a.:
- að hafa áhrif á mótun heildarstefnu ríkis og sveitarfélaga á sviði íþrótta- og frítímamála.
- að auka samstarf meðal félagsmanna.
- að stuðla að aukinni þekkingu og fræðslu meðal félagsmanna.
- að stuðla að aukinni samvinnu við erlenda samstarfsaðila

- að stuðla að fræðslu til almennings um gildi íþrótta- og frítímastarfs sem og almennri lýðheilsu
- að stuðla að samræmingu og hagkvæmni við undirbúning og framkvæmdir sem tengjast íþrótta- og    frítímamannvirkjum.
- að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem vinna að hvers konar forvörnum.
- að stuðla að samstarfi samstarfi  íþrótta-,  frítíma- og skólastarfs.
- að eiga samskipti við ríki, sveitarfélög og félagasamtök vegna íþrótta- og frítímamála.

 

4. grein
Til að vinna að markmiðum sínum heldur félagið árlega fundi að vori og hausti. Vorfundur sem er aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en 31. maí ár hvert og leggur stjórn félagsins til aðalfundarstað í samráði við félagsmenn. Haustfundur skal öllu jöfnu haldinn í október ár hvert.

 

5.grein

Aðalfundur félagsins er æðsta vald í málefnum þess. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað og skal boða aðalfund með minnst mánaðar fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Setning.
2. Kosning fundarstjóra og fundarrita.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
5. Umræður um skýrslu og ársreikinga.
6. Lagabreytingar.
7. Fræðslu- og upplýsingaerindi.
8. Kosning formanns, stjórnar, skoðunarmanna og fagnefnda.
9. Ákvörðun um árgjald.

10. Inntaka nýrra félaga
11. Önnur mál.

 

6.grein
Stjórn félagsins skipi, formaður kjörinn til tveggja ára og fjórir meðstjórnendur kjörnir til tveggja ára. Kosning meðstjórnenda skiptist þannig að tveir og tveir eru kosnir annað hvert ár þannig að kosið er um tvo meðstjórnendur á hverju ár.. Þeir skipti með sér verkum, varaformanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnenda. Kjósa skal tvo varamann og tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn.

Kjósa skal tvo félagsmenn í eftirtaldar fagnefndir, samtals sex nefndarmenn en formaður hverrar nefndar kemur úr stjórn félagsins:

·         Íþróttanefnd

·         Frítímanefnd

·         Fræðslu- og upplýsinganefnd

 

7. grein

Lögum þessum er einungis hægt að breyta á aðalfundi og með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar skuli berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund. Félagsmönnum skulu kynntar tillögur að breytingum 2 vikum fyrir aðalfund.

 

 

8. grein.
Lög þessi öðlast gildi við samþykkt aðalfundar. Jafnframt falla úr gildi fyrri lög.


Lög félagsins voru samþykkt á Ísafirði 10. maí 1997.
Breytingar á 5. grein gerð í Reykjavík 23. maí 2001.
Breytingar á 8. grein gerð á Akureyri 10. maí 2002.

Breytingar á 5. grein gerð á Ísafirði 20. maí 2005.

Breytingar á 7. grein gerð í Snæfellsbæ 13. apríl 2012.

Breytingar á 2., 3., 4., 5., 6., 7. og 8. gerð í Grindavík 12. maí 2017.