FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Frístundaheimilin í Breiðholti - eftir Óskar Dýrmund og Guðrúnu Snorradóttur Mannauður okkar verður til að stórum hluta í uppeldi barnanna. Því er mikilvægt að þróa áfram aðferðir og nálgun okkar á því sviðinu. Því er það fréttnæmt þegar breytingar verða í uppeldisstarfi eins og raunin varð í Breiðholti þegar lengdri viðveru fyrir yngstu börnin var breytt í frístundaheimili. Á vordögum ársins 2000 var ákveðið að koma á laggirnar tilraunaverkefni. Markmiðið var að veita börnum í lengdri viðveru skóla, innhaldsríkt uppeldisstarf á vettvangi tómstunda. Í því skyni var leitað til Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur um að setja á stofn frístundaheimili til tveggja ára í fjórum grunnskólum Breiðholts fyrir 6 - 9 ára börn. Tók félagsmiðstöðin Miðberg að sér framkvæmdina í nánu samstarfi við grunnskólana sem jafnhliða buðu upp á heimanámsaðstoð á sama tíma fyrir 7-9 ára. Í stuttu máli var starfseminni þannig háttað að 6 ára börnin komu úr skólanum kl. 14:00 og fóru þá í íþróttaskóla, tónskóla eða tómstundastarf. Í þessu skyni var stofnað til samstarfs við Íþróttafélag Reykjavíkur og Tónskóla Eddu Borg, Sigursveins og Hörpunnar. Átti þessi dagskrá að standa yfir til þrjú. Á eftir tók við sameiginleg dagskrá frístundaheimilanna fyrir alla aldurshópa. Hugsunin var sú að samhliða vinnudegi foreldra væru börnin að ljúka sínum. Þannig væri barnið búið að sitja skólabekkinn, læra heima og spreyta sig í uppbyggilegri tómstundaiðkun þegar kæmi að því að fjölskyldan næði saman eftir annir dagsins. Umfram allt þá átti þessi breyting að stuðla að ánægju og að tími barnsins eftir skóla héldi áfram að vera innihaldsríkur og skemmtilegur.
Starfið sjálft
Lykillinn að starfi frístundaheimilanna eru starfsmenn þeirra. Þegar farið var af stað var tekin sú ákvörðun að sækja fólk úr ýmsum áttum og áhersla var lögð á jafnt kynjahlutfall. Í röðum starfsmanna má finna fjölbreyttan bakgrunn úr félagsstarfi ýmiskonar, reynslu af uppeldisstarfi hér heima og erlendis frá, kennara, námsmenn, tómstundarfræðinga og listamenn svo nokkur dæmi séu tekin. Grundvallarskilyrði er þó að fá fólk sem hefur áhuga og vilja til að annast og sinna börnum, hafi hjartað á réttum stað! Frístundaheimilin í Breiðholti bjóða uppá fjölbreytta og spennandi dagskrá sem veitir börnunum útrás fyrir sköpunargleði sína eftir að hinum hefðbundna skóladegi lýkur. Tómstundastarfið hefur jafnt einkennst af skipulögðum sem frjálsum leik. Hver vika er undirbúin af starfsmönnum þar sem að áhugamál barnanna fá að njóta sín. Vikudagskráin hefur sína föstu liði og má t.d. nefna tölvustund, matreiðslu, sund og leiklist! Ýmis verkefni hafa verið unnin innan veggja frístundheimilanna og má þá t.d. nefna "Börn og lýðræði". Með því verkefni hefur verið stuðlað að því markvisst að efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir, hafa áhrif á umhverfi og aðstæður sínar og taka þar með einhverja ábyrgð. Reynslan hefur sýnt að börnin upplifa sig ábyrgari og ánægðari þegar tekið er meira tillit til skoðanna þeirra og tilfinninga. Til dæmis fengu frumkvöðlarnir að nefna frístundaheimilin og fór það val fram með lýðræðislegum kosningum. Í Seljaskóla heitir heimilið Denni dæmalausi, Ölduselsskóla Frissi fríski, Fellaskóla Plútó og í Breiðholtsskóla heitir það Bakkasel (sjá www.fristundaheimili.is). Af öðrum viðburðum má nefna að krakkarnir í Denna Dæmalausa í Seljaskóla fengu hana Ástu úr Stundinni okkar í heimsókn. Í því tilefni var æft puttabrúðuleikrit sem þau sýndu Ástu og þau buðu uppá Ástu- og Kelapizzu í tilefni dagsins. Ýmis tækifæri eru til að breyta út af vananum. Öskudagurinn gefur sérstakt tilefni til að fara í betri fötin, vorinu er fagnað með skrúðgöngu og sameiginleg jóladagskrá er fastur liður. Markmiðið er að allir finni eitthvað við sitt hæfi og njóti góðra stunda í skemmtilegum félagsskap. Það er gaman í frístund! Í meðförum starfsmanna hafa heimilin fengið að þróast og hafa eftirtalin leiðarljós orðið til í stefnumörkun starfsmanna: " Börnin nýti og þroski sköpunargleði sína með ýmsu móti. " Þau beri virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. " Hver og einn læri að taka þátt í hópastarfi og tileinki sér þær samskiptareglur sem þar gilda. " Starfsfólk leggi sig fram við að laða fram það besta í hverju barni, þannig að það fullnýti hæfileika sína. " Og síðast enn ekki síst að starfsfólk frístundaheimilanna séu virkir þátttakendur í leik og starfi barnanna. Gott foreldrasamstarf er mikilvægt. Á hverri önn er boðað til foreldrafundar þar sem að foreldrar fá kynningu á því starfi sem við vinnum og grundvöllur til lifandi samræðna er skapaður. Einnig eru foreldrar ávallt velkomnir til að taka þátt og fylgjast með okkar starfi meðal annars á netinu þar sem finna má ótal skemmtilegar myndir af börnunum. Á tveggja vikna fresti eru gefin út fréttabréf frístundaheimilanna þar sem foreldrar og aðrir samstarfsaðilar fá tækifæri til þess að fylgjast með. Það hefur reynst vinsælt að fá tölvupóst með fréttum af börnunum.. Ein meginforsenda þess að börnunun líði vel í frístundaheimilunum er að aðstandendur og starfsmenn séu samstilltir og samtaka. Þetta á einnig við um starfsfólk skólanna. Haldnir eru reglulegir fundir með skólastjórnendum og eru dagleg samskipti milli starfsfólks skólans og frístundaheimilanna mikils metin. Næstu skref Verkefnið var metið að vori 2002. Símakönnun á vegum ÍTR leiddi í ljós að um 90 % foreldra og barna voru ánægð með þjónustuna. Þannig hafa starfsmen verkefnisins haldið áfram að bæta gott starf sem á eftir að skila sér enn frekar til barnanna. Í endurskoðun fyrir verkefnið var ákveðið að fella niður hið hefðbundna tónlistarnám og bjóða í stað þess uppá tónlistarstarf á vettvangi heimilanna sem miða frekar að því að kveikja áhuga barnanna með ýmsu móti, s.s. takt- og hreyfileikjum. Tónskólarnir munu svo bjóða sjálfstætt upp á námskeið í náinni samvinnu við frístundaheimilin. Samstarf okkar við ÍR mun halda áfram og verður 6 ára börnum boðið uppá gjaldfrjálsan íþróttaskóla. Gjaldtökunni var breytt og er nú eitt gjald eða 9500.- á mánuði fyrir þátttöku á frístundaheimilunum. Möguleiki er á 20% afslátt fyrir einstæða foreldra og systkini. Að öðru leyti munu heimilin halda áfram að þróa sína starfsemi eins og verið hefur. Í samþykkt Borgarráðs frá því í vor er svo lögð fram áætlun um að þessi þjónusta standi til boða í öllum grunnskólum Reykjavíkur á næstu þremur árum. Í haust munu frístundaheimili byrja starfsemi sína í Hólabrekku-, Austurbæjar-, Mela-, Granda- og Vesturbæjarskóla. Veturinn 2003 - 2004 er áætlað að heimili hefja starfsemi sína í grunnskóla Grafarvogs og veturinn á eftir munu slík heimili koma í skólana sem eftir eru. Tilkoma frístundaheimilanna er vonandi í takt við væntingar foreldra. Rétt er að leggja áherslu á að þó manngildi og grunninntak uppeldisstarfs breytist lítið þá þarf stöðugt að þróa starfið, í góðu samstarfi með börnum og foreldrum. Þannig aukum við best þann arð sem seint verður metinn á hlutabréfamörkuðunum. Óskar Dýrmundur Ólafsson forstöðumaður Miðbergs Guðrún Snorradóttir fyrirliði barnastarfs í Miðbergi