"Heilbrigð sál í hraustum líkama”
Þann 7. apríl s.l. stóð Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við menntamálaráðuneytið, landlæknisembættið og Lýðheilsustöð fyrir ráðstefnunni “Heilbrigð sál í hraustum líkama” þ.e. áhrif hreyfingar á andlega líðan.
Kynntar voru rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum hreyfingar á andlega líðan og hvernig hægt væri að styðja við fólk til að hreyfa sig meira.
Þórólfur Þórlindsson prófessor kynnti niðurstöður nýrrar íslenskrar rannsóknar sem sýna með meira afgerandi hætti en áður fram á jákvæð áhrif hreyfingar á andlega líðan.
Staðfestir þessi rannsókn niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var 1994 á 90% árgangsins í 9.- 10. bekk. Í rannsókninni 1994 kom fram að bein tengsl voru á milli þunglyndis og hreyfingar.
Í 10. bekk: Þunglyndi og kvíði
Þeir sem hreyfðu sig: aldrei 30%
1 – 2 í viku 21%
3 – 4 í viku 18 %
5x eða oftar 17%
Rannsóknin sem Þórólfur kynnti núna er hluti af stærri þverfaglegri rannsókn á lífsstíl 9 -15 ára íslenskra barna. Framkvæmt var nákvæmt þrekpróf á 200 einstaklingum og veitir það mun nákvæmari upplýsingar en áður.
Niðurstaðan var að 38.5% sem æfa einu sinni í viku eða sjaldnar og eru í lélegasta forminu samkvæmt þrekprófi sýna orðið veruleg þunglyndiseinkenni.
En 16.7% þeirra sem eru í besta líkamlega forminu sýna veruleg þunglyndiseinkenni.
Einnig kom fram að þátttaka í íþróttafélagi skipti sköpum fyrir líkamlegt ástand unglinganna. Þeir sem taka þátt í skipulagðri þjálfun undir leiðsögn þjálfara komu mun betur út úr þrekprófi en þeir sem hreyfa sig án skipulagðrar þjálfunar.
Eftir því sem líkamsástandið er betra þá er sjálfsmyndin sterkari. Andleg líðan getur verið mjög háð líkamlegu ástandi.
Það kom fram að hreyfing skilar meiri árangri við vægu þunglyndi en lyf.
Til staðfestingar þessu kynnti Dr. Rod Dishman prófessor við University of Georgia í Bandaríkjunum líffræðilegar rannsóknir sem hafa staðfest að hreyfing hefur sömu áhrif á heilann og þunglyndislyf.
Hreyfing tekur lengri tíma en lyf að fara að virka en eftir árið eru þeir sem hreyfa sig komnir í góðan bata en þeir sem tóku lyf aftur komnir í þunglyndi.
Svefn hefur mikil áhrif á þunglyndi, góður svefn dregur úr þunglyndi. Það sem gerist þegar einstaklingur fer að hreyfa sig er að hann nær betri svefni vegna þess að líkaminn er þreyttur og þarf hvíld.
Fulltrúi frá heilbrigðisráðuneyti Danmerkur, Sune Krarup-Pedersen kynnti líkan af heilsulyfseðli. Danir ásamt fleiri Norðurlandaþjóðum hafa tekið upp heilsulyfseðla, það þýðir að læknir ávísi hreyfingu sem meðferð í stað lyfja. Danir hafa eyrnamerkt 25 milljónum DK. króna í þetta verkefni. Talið er að allt að 70% Dana hreyfi sig ekki 30 mín. á dag eins og er mælt með á alþjóðamælikvarða.
Héðinn Jónsson sjúkraþjálfari, stjórnandi í vinnuhópi Félags íslenskra sjúkraþjálfara um ávísun á hreyfingu, kynnti hugmyndir hópsins á hreyfingu sem meðferðarform eða “motion på recept”.
Nú er tilbúin á Íslandi tillaga til þingsályktunar um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu, þar sem Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa að hreyfing geti orðið valkostur í heilbrigðisþjónustu, sem lækning og í fyrirbyggjandi tilgangi þannig að læknar geti vísað á hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum á sama hátt og á lyf eða læknisaðgerðir.
Í ráðstefnulok fóru fram pallborðsumræður þar sem meðal annars sátu fulltrúar frá heilbrigðis-menntamála- og félagsmálaráðuneytum. Þar kom fram að á síðasta ári greiddi Tryggingastofnun ríkisins 6,4 milljarða vegna lyfjakostnaðar. Aðstoðarlandlæknir greindi frá að í Bretlandi hefur t.d. verið ákveðið að nýta 5% af þeirri upphæð sem hefur farið í þunglyndislyf til að auka hreyfingu.
Allir voru sammála um að nú ættum við að horfa fram á veginn og gera áætlanir um hvernig ríki, sveitarfélög, íþróttahreyfingin og aðrir sem koma að hreyfingu almennings, geta í sameiningu hvatt og stutt almenning til að hreyfa sig meira.
Ólöf A. Elíasdóttir
íþrótta- og æskulýðsfulltrúi
Vestmannaeyjum