FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Aðalfundur  FíÆT haldinn í Garðabergi  Garðabæ 8.maí 2009.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri flutti erindi og bauð gesti velkomna í Garðabæ. Hann talaði um mikilvægi starfs okkar á þessum umrótartímum og sennilega værum við sá hópur starfsmanna sem mest þarf að bregðast við kröfum um breytingar. Erindi Gunnars  sjá fylgiskjal 1.

 1.-2.  Fundarsetning. Bjarni formaður setti fundinn og stakk upp á  Árna Guðmundssyni  sem  fundarstjóra og Heiðrúnu Janusardóttur sem  fundarritara og var það samþykkt .  Þar á eftir kynntu fundarmenn sig. Fundarstjóri tók við og fór yfir dagskrána.  

3. Skýrsla stjórnar. Bjarni  byrjaði á því að skila kveðjum frá félögum sem ekki komust á fundinn þeim Gísla Árna Eggertssyni og Hauki  Þorvaldssyni. Þar næst fór formaður yfir skýrslu stjórnar.  Bjarni óskaði eftir því að fundurinn sendi frá sér tvær ályktanir

Skýrsla stjórnar:

Ágætu félagar í FÍÆT.

Skýrsla stjórnar en ekki löng að þessu sinni frekar en endranær. Þrátt fyrir það hefur ýmislegt átt sér stað  á árinu sem hefur ýtt af stað umræðu sem gæti orðið til góðra verka þegar fram líða stundir.

Aðalfundur FÍÆT var haldinn á Dalvík í byrjun maí. Hann fór að vanda vel fram og voru umræður fjörlegar og vel látið af fræðsluerindum.  Meðal annars ræddi Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og fyrrum félagi í FÍÆT um starfsemi ungmennaráðs í sínu heimahéraði. Marianne Schöler Lind sálfræðingur frá Danmörku  talaði um ungmenni sem skaða sig, Þóroddur Bjarnason prófessor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri ræddi um félagslega þátttöku barna af íslenskum og erlendum uppruna, Árni Guðmundsson félagsmálafræðingur og aðjunkt í KHÍ kynnti meistanám í KHÍ. Einnig kynnti Árni nýja braut á framhaldsskólastigi í tómstunda-og frítímafræðum.

Rætt var um fámenni félaga á aðalafundum og nauðsyn þess að fara yfir félagaskrá. Það hefur nú verið gert og er enn í vinnslu. Miklar umræður áttu sér stað og var mikill hugur í fundarmönnum um að gera okkur sýnilegri og hvetja sveitafálög landsins til að vanda til við ráðningu starfsfólks og gera fulla grein fyrir starfslýsingu og vinnuumhverfi starfsmanna sinna. Þetta mál hefur verið rætt frekar í stjórn en hefur ekki enn komist í fulla framkvæmd.

Á vorfundinum voru eftirtalin kjörin í embætti:

Bjarni Gunnarsson formaður

Haukur Geirmundsson gjaldkeri

Heiðrún Janusardóttir ritari

Haukur Þorvaldsson meðstjórnandi

Gísli Rúnar Gylfason meðstjórnandi

Varamenn í stjórn voru kosin Alfa Aradóttir og Sveinn Hreinsson

 

Aðalstarf stjórnar á árinu var að reyna að ná frekari umræðu um stefnu félagsins í framtíðinni og það ekki síst í samvinnu við FFF (félag fagfólks í frítímaþjónustu) og Samfés (samtök félagsmiðstöðva).  Við áttum fulltrúa í Framtíðarhópi Samfés en til hans var stofnað af þessum þremur félögum með það fyrir augum að horfa til framtíðar og finna sameiginlega fleti félaganna og skerpa á áherslum þeirra. Framtíðarhópurinn verður starfandi áfram en fyrir síðasta aðalfund Samfés voru nokkrar ályktanir/samþykktir settar fram af hópnum.

Þar má nefna:

- Komið verði á málþingi eða sambærilegum samstarfsgrundveli þar sem að komi Samfés, FÍÆT, FFF, Samband Íslenskra Sveitarfélaga og Menntamálaráðuneytið. 

- Að samstarf Samfés, FFF og FÍÆT varðandi sameiginlegt fræðslu- og þróunarstarfs komist á. Fyrsta skrefið er hugsað fyrrnefnt málþing og     undirbúningsvinna fyrir það. Óskað er eftir einum fulltrúa úr hverjum samtökum í vinnuhóp sem sér um þessi mál.

 

Stjórn FÍÆT hefur rætt um heimasíðu félagsins og er sammála því að það sé nauðsynlegt félaginu að halda henni við en það sé einnig orðið tímabært að uppfæra liði eins og reglur og samninga sem við getum nýtt okkur án þess að þurfa að hringja eða senda tölvupóst á alla félaga. Þetta hefur nú komist í gang fyrir tilstuðlan félaga sem sýnt hafa málinu áhuga. Félagar eru hvattir til að vera á tánum varðandi það að setja nýjar reglur eða samninga þarna inn um leið og slíkt hefur verið samþykkt. Umsjón heimasíðunnar hefur verið í höndum Indriða Jósafatssonar frá upphafi og eru honum þökkuð snör handtök við fréttaflutning og breytingar og umhyggju fyrir þessu mikilvæga hlutverki hans!

Engin sérstök verkefni komu upp á borð félagsins frá ríki eða sveitarfélögum, þ.e. ekki var leitað leiðsagnar eða umsagnar frá frá þessum aðilum. Þrátt fyrir  það áttu fulltrúar félagsins ágæta fundi með fulltrúum menntamálaráðuneytisins þar sem rætt var um frekara samstarf og samvinnu t.d. með ráðstefnuhaldi eða málþingum.

 

Indriði Jósafatsson leitaði á óformlegan hátt eftir samvinnu með Sambandi Íslenskra sveitarfélaga og að sambandið taki upp málefni þess málaflokks sem FÍÆT stendur fyrir enda þar um gríðarstóran málaflokka að ræða sem okkur finnst oft að fái ekki nægjanlega athygli þar inni t.d. miðað við menntamálin. Áður hafði Ómar Einarsson leitað hófanna hjá sambandinu með þessi mál og viðrað þá hugmynd að sambandið stofnaði nefnd eða vinnuhóp til að fara yfir málefni íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála hjá sveitarfélögunum í heild sinni. Hann fékk lítil viðbrögð við umleitan sinni.

Erindi Indriða var svarað af Halldóri Halldórssyni formanni sambandsins þar sem hann sagði sjálfsagt að taka upp þessa umræðu á vettvangi sambandsins.

Í kjölfar þessa framtaks Ómars og Indriða er ekki óeðlilegt að aðalfundur FÍÆT álykti og hvetja stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga til að setja á laggirnar sérstaka nefnd eða vinnuhóp sem vinni að hagsmunamálum sveitarfélaganna á sviði íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála.

Starfsmenn á sviði íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála sveitarfélaganna hafa ekki farið varhluta af þeim breytingum sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarið hálft ár eða svo. Víða heyrast fregnir þess efnis að þrengingar í peningamálum fjölskyldna séu að bitna illa á börnum og unglingum og vandræði og óskir um úrræði vegna þess fjölgi með degi hverjum. Sveitarfélögin hafa verið hvött til að sýna þessum málaflokkum sérstaka athygli og hlúa að starfsemi sem snýr að börnum og ungmennum. Á tímum sem þessum er enn nauðsynlegra en fyrr að halda vel á málum og tryggja að allra leiða sé leitað til að ástandið bitni sem minnst á þeim sem síst mega við því.

Starfsmenn í málaflokknum hafa líka kynnst þessu af eigin raun, það heyrir maður á fréttum af niðurskurði á störfum og breytingum á launamálum starfsmannanna. Við höfum meira að segja nú þegar misst félaga úr okkar röðum vegna þessa. Það er sorglegt þrátt fyrir að allir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að standa saman og leggja sitt að mörkum til að aðstoða við að halda málum í sem bestu horfi.

Stjórn FÍÆT fer þess á leit við aðalfundinn að send verði áskorun til sveitarstjórna landsins þess efnis að allra leiða verði leitað til að niðurskurður eða aðhald bitni sem minnst á málaflokkum sem snerta íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna og unglinga sem og að hlúð verði að frjálsum félagasamtökum á þessum vettvangi með sama markmiði.

Athygli undirritaðs, sem og trúlega flestra fundarmanna á aðalfundinum, hefur undanfarna mánuði oftar en ekki beinst að fréttum ljósvakanna af vaskri framgöngu löggæslunnar í að hefta útbreiðslu fíkniefna, framleiðslu þeirra og smygls. Ég verð að segja að þetta eru afar jákvæðar fréttir þegar svona vel tekst til og vonandi verður þetta til að hvetja almenning til að styðja betur við bakið á lögreglunni með upplýsingum og hvatningu til enn frekari góðra verka. Í því umróti í þjóðfélaginu sem við höfum gengið í gegn um sl. mánuði þá hefur lögreglan ekki alltaf átt sérstaklega upp á pallborðið hjá almenningi en nú er mál að við hrósum fyrir það sem vel er gert og fögnum þessum árangri upp á síðkastið fagnað.

Ég sting því upp á því að aðalfundur sendi frá sér ályktun þar sem löggæslumönnum landsins verði hrósað fyrir frábær störf, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður, við að uppræta þann vágest sem fíkniefnin eru.

Að lokum óska ég félaginu okkar og meðlimum þess velfarnaðar á komandi tímum sem einkennast án efa af áframhaldandi óvissu og erfiðleikum. En erfiðleikar eru til að sigrast á og við megum ekki gleyma því að við höfum mikilvægu hlutverki að gegna í því ferli.

Ég vil þakka félögum í stjórn FÍÆT fyrir samstarfið á starfsárinu svo og ykkur öllum fyrir ánægjuleg samskipti. Ég vil einnig þakka félögum sem hafa tekið að sér hin ýmsu hlutverk fyrir FÍÆT á liðnu ári kærlega fyrir og hvet alla til áframhaldandi góðra verka á komandi starfsári.

 

4. Endurskoðaðir ársreikningar. Haukur Geirmundsson fór  yfir ársreikninga félagsins og voru þeir samþykktir.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.  Engar umræður voru um skýrslu  stjórnar eða ársreikninga og voru þessir liðnir bornir upp til samþykktar. Var þetta samþykkt samhljóða.

6. Engar lagabreytingar voru á dagskrá

7. Fræðslu og upplýsingaerindi:

I. Kristinn H. Svanbergssson Fjármál sveitafélaga í málaflokki 106 2004-2007.

Kristinn  fjallaði um framlög til okkar málaflokka hjá sveitarfélögunum og samanburð þeirra síðustu ár.  Kristinn fór yfir skattekjur sveitafélaga m.t.t. jöfnunarsjóðs. Málaflokk 106  -  kr.pr íbúa . Verulega mikill munur er á sveitafélögum hversu  miklir fjármunir eru settir í málaflokkinn. Sveitafélögin eru einnig mismunandi. Ekki eru t.d öll sveitafélög með skíðasvæði.  Flestir fundarmenn  hafa áhyggjur af afkomu málaflokksins og hversu háar upphæðir fara í rekstur og húsaleigu og minna í starfsemina. Formaður íþrótta og tómstundanefndar Garðabæjar upplýsti fundarmenn um að einmitt núna í kreppunni ákvað Garðabær að gefa í og hækkaði styrki til æskulýðs og íþróttamála.

Sjá töflur Kristins sem fylgiskjal 2.

 

II. María Björk: Heilt þorp til að ala upp barn.  Sumar T.Í. M . (tómstundir, íþróttir og menning) María sagði frá því uppbyggingarstarfi sem átt hefur sér stað í sveitafélaginu Skagafirði . Farið var í naflaskoðun á öllum málaflokknum. Unnið er eftir  ,,Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“. Samþætting á öllu íþrótta og tómstundastarfi í sveitafélaginu.  Nú er þriðja sumar TÍM að fara í gang. Miklu almennari þátttaka, meiri þátttaka í íþróttum yfir veturinn. María sagði einnig frá sk Hvatapeningum

Hvernig virkar Hvatapeningakerfið?

Hvatapeningar verða 10.000 fyrir hvert barn fyrir allt sumarið.Til að foreldrar fái Hvatapeninga verða þeir að skrá barn sitt í að minnsta kosti eitt tómstundanámskeið og tvær Íþróttagreinar og barnið verður að vera skráð í sumar TÍM í alla vega fjórar vikur, eða ef kostnaður þátttöku barns í Sumar TÍM nemi að lágmarki 30.000 kr. yfir sumarið.

Vika í Reiðnámskeið eða Siglinganámskeið jafn gildir 2 vikum í öðrum Íþróttum fyrir Hvatapeninga.

 

Sjá glærur Maríu sem fylgiskjal 3

 

8. Kosning stjórnar, formanns, forseta og skoðunarmanna

Haukur Geirmundsson og Heiðrún Janusardóttir  gengu úr stjórn. Indriði Jósafatsson var kosinn næsti forseti Pálma. Næsti aðalfundur Pálma verður haldinn á Akranesi og Borgarnesi .

Bjarni Gunnarsson var endurkjörinn formaður til tveggja ára. Aðrir í stjórn voru kosnir: Gísli Gylfason var kosinn gjaldkeri en hann er á seinna ári , Arna Margrét Erlingsdóttirkosinn til tveggja ára ,  Ragnar Örn Pétursson kosinn til tveggja ára, Haukur Þorvaldsson er á seinn ári. Í varastjórn voru kjörin Alfa Aradóttir, Akureyri  og Jóhann Rúnar Pálsson Norðurþingi . Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Haukur Geirmundsson og Steinþór Einarsson

9. Ákvörðun um árgjöld. Samþykkt að halda sama árgjaldinu sem er 20.000.-

10. Önnur mál:

I. Starfsfélagar heiðraðir, Bjarni Gunnarson:

Ágætu félagar.

Það er ekki löng hefð fyrir því að heiðra aðila í okkar félagi fyrir eitt eða annað en síðan 2003 hefur það þó gerst í nokkur skipti. Það voru í byrjun stofnfélagar sem hlutu þann heiður en síðan hafa nokkrir aðilar fengið gullmerki félagsins fyrir langan starfsaldur og aðild að félaginu svo og fyrir vel unnin og virk störf innan þess.

Heiðursfélagar FÍÆT hingað til eru:

Stofnendur félagsins á aðalfundi á Þingvöllum 2003.

Björn Helgason Ísafirði

Guðmundur Þ. B. Ólafsson Vestmannaeyjum

Ómar Einarsson Reykjavík

Níels Árni Lund Reykjavík

Hermann Sigtryggsson Akureyri

Gísli Árni Eggertsson Reykjavík

Elís Þór Sigurðsson Akranesi ( Afhent á Ísafirði 2005 )

Egill Heiðar Gíslason ( Afhent á Ísafirði 2005 ) 

 Aðrir sem útnefndir hafa verið heiðursfélagar FÍÆT

Reynir Karlsson íþróttafulltrúi Ríkisins ( Ísafirði 2005 )

Eiríkur Björgvinsson Akureyri  ( Egilstöðum 2006 )

Árni Guðmundsson Hafnarfirði ( Reykjanesbæ 2007 )

 

Enginn félagi var heiðraður í fyrra en í ár hefur okkur runnið blóðið til skyldunnar og við heiðrum þrjá félaga að þessu sinni gullmerki félagsins.

 

Stefán Bjarkason  Sá fyrsti hefur starfað í sínu sveitarfélagi frá árinu 1987 og  rétt missti af því að vera stofnfélagi í FÍÆT eða Pálmum eins og félagið var kallað í upphafi. Hann hefur á löngum starfsaldri verið áberandi í félaginu og ekki legið á liði sínu við að aðstoða nýja félaga og vinna í og með stjórnum félagsins. Þar fyrir utan liggja spor hans víða í málaflokknum í hans heimabyggð. Þessi aðili er Stefán Bjarkason frá Njarðvík.

Ingvar Jónsson  Næsti aðili er gamalgróin kempa sem hóf störf fyrir sitt sveitarfélag 1. september 1988, klukkan rétt fyrir átta að morgni. Hann var lengi í um það bil hálfu starfi enda störfum hlaðinn við íþróttakennslu og í því að vinna sér sess, bæði með þjálfun og barneignum, sem faðir körfuknattleiksins í sínum heimabæ. Hann hefur verið í félaginu frá 1996 en er hingað til eini félaginn sem hefur stórslasað sig við að taka þátt í þriggja stiga keppninni á vorfundi en það gerðist í Mosfellsbæ árið 2003. Þetta er Ingvar Jónsson úr Hafnarfirði.

Gunnar Hrafn Richardsson Sá síðasti af þeim þremur sem við heiðrum hér í dag og veitum gullmerki FÍÆT er gamalreyndur refur, aðallega á sviði æskulýðsmálanna og á vettvangi félagsmiðstöðvanna. Hann hóf störf fyrir sitt sveitarfélag árið 1985 en gekk ekki til liðs við félagið okkar fyrr en árið 2000. Hann hefur alla tíð verið áberandi í forystusveit þeirra sem hafa markað spor félagsmiðstöðvanna og margir hafa sótt styrk í hugarheim hans enda maðurinn endalaust að pæla og spá. Litlum sögum hins vegar fer af afrekum mannsins á íþróttasviðinu. Það er okkur engu að síður heiður að fá að sæma Gunnar Hrafn Richardsson úr Garðabæ gullmerki FÍÆT.

 

II. Bjarni formaður leggur tvær tillögur  til samþykktar fyrir fundinn. 

Tillaga I.

Aðalfundur Félags íþrótta, æskulýðs- og tómstundafulltrúa, FÍÆT  haldinn í Garðabæ 8.maí 2009
Starfsmenn á sviði íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála sveitarfélaganna hafa ekki farið varhluta af þeim breytingum sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarið hálft ár eða svo. Víða heyrast fregnir þess efnis að þrengingar í peningamálum fjölskyldna séu að bitna illa á börnum og unglingum og vandræði og óskir um úrræði vegna þess fjölgi með degi hverjum.
Aðalfundur FÍÆT skorar á sveitarstjórnir landsins að allra leiða verði leitað til að niðurskurður eða aðhald bitni sem minnst á málaflokkum sem snerta íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna og unglinga sem og að hlúð verði að frjálsum félagasamtökum á þessum vettvangi. Á tímum sem þessum er enn nauðsynlegra en fyrr að halda vel á málum og tryggja að allra leiða sé leitað til að ástandið bitni sem minnst á þeim sem síst mega við því.
 
 Tillaga II
Aðalfundur Félags íþrótta, æskulýðs- og tómstundafulltrúa, FÍÆT  haldinn í Garðabæ 8.maí 2009. Athygli  hefur undanfarna mánuði oftar en ekki beinst að fréttum ljósvakanna af vaskri framgöngu lögreglu og tollayfirvalda í að hefta útbreiðslu fíkniefna, framleiðslu þeirra og smygls. Í því umróti í þjóðfélaginu sem við höfum gengið í gegn um sl. mánuði  hefur lögreglan ekki alltaf átt sérstaklega upp á pallborðið hjá almenningi . Þess vegna vill aðalfundur FÍÆT  hrósa fyrir það sem vel er gert og fagnar þessum árangri. Einnig er skorað á almenning  að styðja betur við bakið á lögreglunni með upplýsingum og hvatningu til enn frekari góðra verka.

 

Aðalfundur samþykkir báðar þessar tillögur.

III. Indriði Jósafatsson.  Samband íslenskra sveitafélaga - Tenging.  Indriði fagnaði góðu sambandi við menntamálaráðuneytið en vakti athygli á því að það hlyti að teljast óeðlilegt  að meiri tenging sé við ráðuneyti menntamála heldur en Samband íslenskra sveitafélaga. Indriði og Ómar Einarsson ætla að fara í þá vinnu að efla samskiptin við sambandið til að efla umræðuna innan þess. Fundarstjóri leggur til að Ólafur Þór Ólafsson fari einnig í þennan hóp.  Aðalfundur samþykkir þessa tillögu

Indriði tók einnig fram að hann og fleiri innan FÍÆT sakna haustfunda FÍÆT og menntamálaráðuneytisins.

Erlendur Kristjánsson sagði frá ástæðum þesss að haustfundirnir duttu niður. Erlendur benti einnig á að gott væri að taka upp umræðuna við sveitafélögin innan landshlutasamtakanna. Erlendur var spurður að því hvort ríkið komi eitthvað inn með pening í málaflokkinn  í ljósi niðurskurðar hjá sveitafélögum. Hann átti ekki von á því þar sem ríkið stendur frammi fyrir stórfelldum niðurskurði.

 IV. Árni var með stutta kynningu á meistaranámi KÍ í tómstundafæðum

               

Eftir góðar umræður þakkaði fundarstjóri fyrir sig og Bjarni ný endurkjörinn formaður tók við. Hann þakkaði fundarstjóra skelegga fundarstjórn og þakkaði einnig það traust sem honum er sýnt . Hann minnti á heimasíðu félagsins www.fiaet.is .  Síðan þakkaði hann fundarmönnum fyrir góðan fund.  Fleira ekki gert fundi slitið  kl 17.30.