Nýr félagi í Þingeyjarsveit

Ég heiti Aðalbjörn Jóhannsson og þrátt fyrir að vera uppalinn Öxfirðingur þá er ég ekta Þingeyskur bastarður með rætur um allar sveitir. Síðustu ár hef ég þó búið á óðali forfeðranna í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu með manninum mínum og hundinum Freyju.

Síðasta áratug hefur verið vel varið í ýmsum störfum á tómstunda- og æskulýðssviði, meðal annars sem verkefnastjóri hjá Norðurþingi og félagsmálafulltrúi hjá Þingeyjarskóla, en upp úr sameiningu sveitarfélaganna Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps undir nafni Þingeyjarsveitar var ég ráðinn sem tómstunda- og æskulýðsfulltrúi hins nýja sveitarfélags.

Starfið er nýtt innan sveitarfélagsins og er eins og nýja sveitarfélagið í töluverðri þróun. Því er ætlað að hafa yfirumsjón með þróun og framkvæmd þjónustu sem snýr að ungmennum í sveitarfélaginu ásamt málefnum íþrótta- og menningar. Um er að ræða fjölbreytt verkefni sem tengjast öllum skólastigum, íþrótta- og frístundastarfi, forvörnum, samfélagsmálum og lýðheilsu. Spennandi viðfangsefni í stóru og dreifbýlu sveitarfélagi.