Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðar hefur skráð sig í félagið. Bjóðum við Geir velkominn.
Hann sendi okkur kynningu á sjálfum sér:
Ég heiti Geir Bjarnason, Gaflari og er alveg að verða fimmtíu ára. Hóf störf í félagsmiðstöðinni Vitanum árið 1988 þar sem Margrét nokkur Sverrisdóttir kenndi mér að vinna í félagsmiðstöð og taka mark á ungu fólki. Nokkrum árum síðar eftir að hafa klárað kennaranám varð ég forstöðumaður Vitans. Vitinn var á þessum tíma stór og merkileg félagsmiðstöð þar sem fjöldi starfsmanna vann og starfsemi var afar fjölbreytt. Eftir að hafa orðið forstöðumaður þar hóf ég að vinna mikið með Árna nokkrum Gúm fyrrum æskulýðsforingja hér í bæ að allskonar stærri verkefnum eins og 17. júní, atvinnumálum ungs fólks, erlendum samskiptum, Samfés og ég veit ekki hvað. Síðan þegar hann fór í námsleyfi 2002 leysti ég hann af.
Í ein tíu ár, eða ca 2003-2013 var ég forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar og forstöðumaður Gamla bókasafnsins sem var ungmennahús fyrir 16+. Um 2013 var ég einnig gerður að æskulýðsfulltrúa bæjarins. Á síðasta ári var staða íþróttafulltrúa og æskulýðsfulltrúa sameinuð og ég færður til í það starf. Hef nú í gegnum tíðina eitthvað komið að þeim málaflokki en er engu að síður nýgræðingur þar. Svo eru verkefni sem tengjast menningarviðburðum bæjarins einnig á minni könnu.
Hér í firðinum fagra eru um 10 félagsmiðstöðvar og fleiri ef félagsstarf aldraðra telst með. Um 9 frístundaheimili, þrjár almenningsundlaugar, nokkur íþróttahús og hellingur af allskonar íþróttamannvirkjum. Hér er öflug íþróttahreyfing sem er afar metnaðarfull sem sést kannski besti varðandi árangur í vinsælustu stóru greinunum; fótbolta og handbolta.
Ég er stúdent úr Flensborgarskóla, B.Ed próf, kennarapróf frá Kennaraháskólanum, svo lauk frá sama skóla Dipl. próf í stjórnun (skólastjórapróf) um síðustu aldamót og árið 2010 kláraði ég M.Ed. meistarapróf í stjórnunarfræðum frá Háskóla Íslands.
Er sportveiðimaður og matarmaður auk þess hef ég brennandi áhuga á velferðarmálum barna.
Magga og Linda hafa verið að suða í mér að ganga í FÍÆT og nú læt ég verða af því og hlakka til að starfa með ykkur.